Íslandspóstur selur Gagnageymsluna

Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts
Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts

Íslandspóstur hefur selt fyrirtækið Gagnageymsluna ehf., en félagið var í fullri eigu Póstsins. Kaupandi er Gagnaeyðing ehf. en í tilkynningu kemur fram að kaupverðið sé trúnaðarmál að ósk kaupanda. Þá er einnig tekið fram að salan hafi óveruleg áhrif á fjárhag og rekstur Íslandspósts.

Með þessu hafa öll dótturfélög Póstsins annað hvort verið sett í sölu eða sölumeðferð. Greint var frá því í síðasta mánuði að Íslandspóstur hefði selt hlut sinn í Frakt flutningsmiðlun. Þá er prentsmiðjan Samskipti í söluferli. Allt þetta er hluti af umfangsmiklum hagræðingaraðgerðum félagsins.

Skipt var um forstjóra Íslandspósts í maí og fljótlega eftir það var greint frá því að fyrirtækið ætlaði að færa höfuðstöðvar sínar í hagkvæmara húsnæði. Þá var 43 starfsmönnum sagt upp í ágúst, en alls hefur stöðugildum hjá fyrirtækinu fækkað um 80 á árinu.

Í tilkynningunni frá Póstinum í dag er haft eftir Birgi Jónssyni forstjóra að þegar söluferli Samskipta ljúki muni Íslandspóstur ekki eiga nein dótturfélög í rekstri. „Aðgerðaráætlun stjórnar og stjórnenda Póstsins snýst um að einbeita sér að kjarnastarfseminni, tryggja viðsnúning í rekstrinum og stórbæta þjónustu við viðskiptavini okkar, en rekstur dótturfélaga á ólíkum sviðum atvinnulífsins fellur illa að þessum áherslum okkar. Við þökkum viðskiptavinum Gagnageymslunnar samfylgdina og óskum nýjum eigendum góðs gengis í framtíðinni.“

mbl.is/ÞÖK
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK