Vægur samdráttur í ár en bjartari tíð á næsta ári

Rann­veig Sig­urðardótt­ir aðstoðarseðlabanka­stjóri og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Þrátt fyrir blikur ...
Rann­veig Sig­urðardótt­ir aðstoðarseðlabanka­stjóri og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Þrátt fyrir blikur á lofti á fasteignamarkaði er talið ólíklegt að stöðugleiki fjármálakerfisins raskist. Skjáskot

Þrátt fyrir töluverða óvissu um innlenda efnahagsþróun á komandi misserum, bæði af innlendum orsökum og vegna þróunar erlendis, og að útlit sé fyrir vægan efnahagssamdrátt á þessu ári, er útlit fyrir bjartari tíð á næsta ári. Áhrif af áföllum í ferðaþjónustu á þjóðarbúskapinn hafa verið mildari en gert var ráð fyrir í fyrstu og bein áhrif á viðskiptabankana þrjá eru takmörkuð enn sem komið er.

Helstu áhættuþættir innanlands tengjast stöðu ferðaþjónustunnar og þróun á íbúðar- og atvinnuhúsnæðismarkaði, en samspil er milli þessara áhættuþátta. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleika sem Seðlabankinn gaf út í morgun.

Samdráttur í ferðaþjónustu gæti komið fram í vanskilum

Í inngangi Rannveigar Sigurðardóttur aðstoðarseðlabankastjóra segir að dregið hafi úr útlánavexti viðskiptabankanna til ferðaþjónustunnar, en áframhaldandi samdráttur í greininni geti komið fram í auknum vanskilum og útlánatöpum. Er vísað til þess að virðisbreyting útlána hafi verið sá rekstrarþáttur sem mest áhrif hafi haft á breytingu á afkomu bankanna frá í fyrra og útlit sé fyrir að virðisbreytingarnar muni hafa talsverð neikvæð áhrif á rekstrarafkomu bankanna í ár.

Blikur á lofti á fasteignamarkaði

Rannveig bendir á að tengsl séu á milli stöðu ferðaþjónustu og áhættu á húsnæðismarkaði. Samdráttur í ferðaþjónustu hafi ásamt öðrum þáttum stuðlað að því að hægt hefur verulega á hækkun íbúðaverðs. Þá séu vísbendingar um að velta dragist saman og að sölutími hafi lengst á sama tíma og framboð hafi aukist.

„Samhliða fjölgun nýbygginga hefur dregið úr skammtímaútleigu íbúða á höfuðborgarsvæðinu til ferðamanna. Offramboð og lækkun nafnverðs gætu fylgt í kjölfarið. Í því felst áhætta fyrir fjármálakerfið,“ segir í innganginum og tekið fram að lánastofnanir þyrftu að búa sig undir að nýbyggingar muni seljast hægt, veðsetningarhlutföll fasteignaveðlána hækki og útlánatöp vegna íbúðarhúsnæðis aukist.

Fjármálastöðugleiki var gefinn út í morgun af Seðlabankanum.
Fjármálastöðugleiki var gefinn út í morgun af Seðlabankanum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Lækkandi vextir gætu haft áhrif á afkomu bankanna

Lausafjárstaða bankanna er umfram kröfur Seðlabankans og í erlendum gjaldeyri er hún mjög rúm. Hins vegar segir í innganginum að lækkandi vaxtastig geti einnig haft áhrif á rekstrarhorfur bankanna. „Til þess að miðla breytingum á vöxtum Seðlabankans gætu þeir þurft að draga úr vaxtamun þar sem vextir á óbundnum innlánum eru nálægt núlli og því takmarkað svigrúm til að miðla frekari vaxtalækkunum á skuldahliðina. Minni vaxtamunur myndi að öðru óbreyttu draga úr hagnaði þeirra og arðsemi.“

Ólíklegt að stöðugleiki raskist

Í heild þykir viðnámsþróttur fjármálakerfisins og einkageirans mikill. Við núverandi aðstæður sé því ólíklegt að nýleg áföll muni raska stöðugleika fjármálakerfisins á næstu misserum að því gefnu að alþjóðlegar efnahagshorfur versni ekki mikið og viðnámsþróttur fjármálafyrirtækja haldist stöðugur.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK