Lækkar úr 45 milljörðum í 36 milljarða

Launþegum sem starfa við farþegaflutninga með flugi fækkaði um 21% …
Launþegum sem starfa við farþegaflutninga með flugi fækkaði um 21% á milli ára. mbl.is/​Hari

Virðisaukaskattskyld velta á tímabilinu júlí til ágúst á þessu ári, að undanskilinni veltu frá farþegaflutningum með flugi, er svo til óbreytt samanborið við sama tímabil í fyrra. Velta frá farþegaflutningum með flugi hefur hins vegar dregist saman um tæpan fjórðung á þessu tímabili og lækkað úr 45 milljörðum árið 2018 í 36 milljarða árið 2019.

Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar. 

Þá segir, að launþegum í einkennandi greinum ferðaþjónustu hafi fækkað um 8% í september samanborið við september í fyrra, eða um 2.600 launþega. Launþegum sem starfa við farþegaflutninga með flugi fækkaði um 21% á milli ára auk þess sem launþegum í veitingasölu- og þjónustu fækkaði um 8%. Launþegum í öðrum atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu fækkaði um 9%, að því er Hagstofan greinir frá.

Grafík/Hagstofa Íslands

Enn fremur kemur fram, að meðalfjöldi launþega á tímabilinu frá apríl til september í ár hafi verið 28.450 og fækkaði þeim um 7% samanborið við sama tímabil í fyrra þegar þeir voru að meðaltali 30.700.

„Þar vegur þyngst fækkun launþega í farþegaflutningum með flugi, sem fækkaði um 19% á þessu tímabili. Séu launþegar í farþegaflutningum með flugi undanskildir hefur launþegum fækkað um 5% á ofangreindu tímabili.“

Gistinætur í september voru 1.060 þúsund og drógust saman um 4% frá sama mánuði í fyrra þegar þær voru 1.100 þúsund. Fækkaði gistinóttum á öllum tegundum gististaða á milli ára en hlutfallslega dróst fjöldi óskráðra gistinótta (t.d. gisting greidd í gegnum vefsíður, bílagisting og ógreidd innigisting) saman um 7% á meðan gistinóttum á skráðum gististöðum fækkaði um tæplega 3% að sögn Hagstofunnar. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK