Kynnti nýjan sjóð sem á að efla frumkvöðlastarf

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir kynnti aðgerðir í þágu nýsköpunarmála á …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir kynnti aðgerðir í þágu nýsköpunarmála á fundi Samtaka iðnaðarins í Hörpu síðdegis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra nýsköpunarmála kynnti í dag aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu nýsköpunar, á Tækni og hugverkaþingi Samtaka iðnaðarins, sem fram fer í Hörpu. Meðal aðgerða er stofnun nýs íslensks hvatasjóðs nýsköpunardrifins frumkvöðlastarfs, sem fær heitið Kría. Gert er ráð fyrir að ríkið verji 2,5 milljörðum króna til sjóðsins á næstu þremur árum.

Einnig er stofnuð sérstök hugveita ráðherra um nýsköpunarmál og krafa verður gerð til stofnana sem heyra undir nýsköpunarráðherra að kaupa aðkeyptar nýsköpunarlausnir, svo eitthvað sé nefnt.

Kría verður hvatasjóður sem fjárfestir í vísisjóðum (e. venture capital) og mun sjóðurinn „auka aðgengi að fjármagni og tryggja samfellu í fjármögnunarumhverfi frumkvöðla og nýsköpunar,“ samkvæmt fréttatilkynningu atvinnuvegaráðuneytisins.  

„Hér er um að ræða beinar aðgerðir í þágu nýsköpunar á Íslandi, aðgerðir sem munu styrkja, hvetja og hlúa að frumkvöðlastarfi á Íslandi. Nýsköpunarstefnan á að gera Ísland betur í stakk búið að mæta áskorunum framtíðarinnar með því að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum. Með Kríu frumkvöðlasjóði festum við í sessi og eflum fjármögnunarumhverfi frumkvöðla og tryggjum þannig áframhaldandi vöxt þeirra með því að vera hvati vísifjárfestinga,“ er haft eftir Þórdísi Kolbrúnu í tilkynningu.

Frá fundinum í dag.
Frá fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Krafa til stofnana um að kaupa nýsköpunarlausnir

Þar kemur einnig fram að ráðherra hafi ákveðið að í fjárveitingum til þeirra stofnana sem heyra undir ferðamála, iðnaðar og nýsköpunarráðherra verði gerð krafa um að hluta þeirra verði varið í aðkeyptar nýsköpunarlausnir.

Einnig hefur ráðherra farið þess á leit við Orkustofnun að stofnunin opinberi gögn sín og verði leiðandi í því að auka notkun á gögnum hins opinbera í þágu nýsköpunar.

„Til að ýta undir slíka notkun grunnanna, mun Orkustofnun skipuleggja hakkaþon þar sem saman koma fulltrúar stofnunarinnar og fulltrúar frumkvöðla, sem sjá möguleika í að nýta slík gögn til að þróa nýjar lausnir og skapa eitthvað nýtt,“ segir í tilkynningunni.

Þórdís Kolbrún stefnir síðan einnig á að að leggja fram frumvarp um auknar heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í vísisjóðum. Þær heimildir fara upp í 35% gangi þær áætlanir eftir, en í tilkynningu ráðuneytisins segir að núgildandi reglur hér á landi geri vísisjóðum „óþarflega erfitt fyrir að sækja sér fjármagn.“

Hilmar Veigar Pétursson, stofnandi CCP.
Hilmar Veigar Pétursson, stofnandi CCP. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ráðherrar sitja með frumkvöðlum í hugveitu

Þórdís Kolbrún kynnti einnig að stofnuð yrði ný hugveita ráðherra, skipuð tíu reynslumiklum frumkvöðlum og fjárfestum, auk ráðherra nýsköpunar og fjármálaráðherra.

„Verkefni hugveitunnar verða að leggja reglulega til ábendingar, tillögur eða vandamál sem þarfnast úrlausna á málefnasviðinu og að veita endurgjöf á áætlanir og verkefni ráðuneytanna sem snerta málaflokkinn, bæði ný verkefni, og núverandi umhverfi,“ segir í tilkynningunni.

Þeir sem sitja munu í þessari hugveitu, ásamt Þórdísi Kolbrúnu og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra eru eftirfarandi:

  • Ari Helgason, fjárfestir hjá Index Ventures

  • Ágústa Guðmundsdóttir, meðstofnandi Zymetech og þróunarstjóri fyrirtækisins

  • Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, fjárfestir og stjórnarmaður í ýmsum fyrirtækjumog fyrrum framkvæmdastjóri Actavis

  • Guðbjörg Rist, framkvæmdastjóri Atmonia

  • Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull og fyrrum stjórnandi hjá Google

  • Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Kerecis

  • Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, meðstofnandi og rekstrarstjóri Teatime Games, áður rekstrarstjóri QuizUp, og meðstofnandi & framkvæmdastjóri Clara

  • Stefanía Bjarney Ólafsdóttir, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Avo

  • Tryggvi Þorgeirsson, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Sidekick Health

  • Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Kara Connect

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta eru fyrstu aðgerðirnar í takt við nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Þetta eru stór skref sem við stígum í dag en verkinu er hvergi nærri lokið og því á aldrei að ljúka. Við þurfum stöðugt að huga að því að skapa hér umhverfi þar sem frumkvöðlar finna frjósaman farveg, vaxa, dafna og þroskast í opnu og frjálsu umhverfi alþjóðlegrar samkeppni og samvinnu. Næstu aðgerðir verða kynntar í febrúar 2020,“ segir Þórdís Kolbrún.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK