Flytja ferskan fisk til Bandaríkjanna

Vilhelm Þorsteinsson tók við sem forstjóri Eimskips í byrjun þessa …
Vilhelm Þorsteinsson tók við sem forstjóri Eimskips í byrjun þessa árs. Kristinn Magnússon

Eitt af því sem veldur breytingum í flutningum á sjávarafurðum er bætt kælitækni, sem gerir sjóflutninga samkeppnishæfari á markaðnum. Vilhelm Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, segist í samtali við ViðskiptaMoggann búast við að geta flutt ferskan fisk til Bandaríkjanna innan þriggja ára. Það muni þýða möguleika á að flytja meira magn á hærra verði fyrir afurðirnar. Það hækki útflutningstekjur frá Íslandi með miklu lægri flutningskostnaði en með flugi, og á umhverfisvænni hátt.

Segir Vilhelm að fyrst yrði líklega um flutning á laxi að ræða þar
sem hann þoli fleiri daga í geymslu. „Við erum með mjög flottar siglingaleiðir á fimmtudagskvöldum frá Reykjavík fyrir ferskan fisk beint til Rotterdam í Hollandi. Við komum þangað á sunnudagskvöldum og svo er vörum dreift þaðan til Frakklands og Þýskalands aðfaranótt mánudags. Fiskurinn fer síðan frá dreifingarmiðstöðvum í Frakklandi og Þýskalandi á mánudagsmorgni, þannig að fiskur sem veiddur er á þriðjudegi, miðvikudegi og á fimmtudagsmorgni vikuna áður er kominn í búðir á meginlandi Evrópu á þriðjudegi í vikunni á eftir.“

Vöruhótel Eimskips.
Vöruhótel Eimskips. Kristinn Magnússon

Bætt kælitækni hefur einnig áhrif á innflutning á ferskvöru til Íslands. Vilhelm segir að mjög vinsælt sé að flytja ferska ávexti og grænmeti frá Árósum eftir hádegi á föstudegi, sem er svo komið í verslanir hingað á þriðjudegi, og frá Rotterdam á fimmtudögum sem er komið í verslanir upp úr hádegi á mánudögum.

Meiri upplýsingar

Upplýsingagjöf Eimskips hefur verið með mesta móti síðan Vilhelm mætti í brúna hjá félaginu. Það er með ráðum gert að hans sögn. Hafandi starfað í tuttugu ár hinum megin borðsins, á fjármálamarkaði, nánar tiltekið á fyrirtækjasviði Íslandsbanka, hafi honum fundist að þarna mætti gera betur. Í anda þessarar stefnu hafa fjárfestar og almenningur t.d. fengið endurteknar tilkynningar um stöðu mála í Kína þar sem nú eru tvö stór flutningaskip í smíðum fyrir Eimskip. Smíði þeirra hefur tafist úr hófi, og oftar en einu sinni hefur afhendingu verið frestað. Þá er fyrirtækið farið að birta upplýsingar um viðhaldskostnað, auk ýmissa viðbótarfjárhagsupplýsinga eins t.d. hvert markmið félagsins er hvað eiginfjárhlutfall varðar.

Það markmið var birt samhliða birtingu níu mánaða uppgjörs félagsins nú á dögunum. „Við höfum fengið góð viðbrögð við þessari stefnu okkar. Um daginn, þegar níu mánaða uppgjörið var kynnt, þá birtum við í fyrsta skipti upplýsingar um fjármagnsskipanina. Við sögðum frá því opinberlega að við stefndum að því að lækka eiginfjárhlutfallið úr 45% í 40%, og hafa skuldsetninguna 2-3 x EBITDA.

Þessi stefna hefur ekki verið til staðar hjá félaginu til þessa, og því ekki opinber. Hvað viðhaldsfjárfestingar varðar þá hefur það ekki verið gert áður hér að birta viðhaldsfjárfestingaráætlunina. Við upplýstum einmitt um það um daginn að sú áætlun hefði  verið lækkuð í kjölfar sölu þriggja skipa í Noregi,“ segir Vilhelm og á þar við nýlegar fréttir af því að Eimskip seldi þrjú frystiflutningaskip félagsins í Noregi fyrir 12 milljónir dollara, skipin Langfoss, Stigfoss og Vidfoss. Eftir söluna í Noregi verða frystiskip Eimskips fjögur þar í landi, þar af þrjú í eigu Eimskips, en félagið leigir eitt skipanna sem það seldi til baka í tvö ár.

Öðruvísi flutningstölur

„Annað sem er nýtt hjá okkur er að við sendum frá okkur ítarlegri upplýsingar um flutningstölur. Félagið hefur aldrei áður gefið út hve mikið magn það flytur, heldur einungis hver aukningin eða samdrátturinn er í prósentum talið. Nú segjum við frá hvoru tveggja. Það skýrir betur en ella fyrir almenningi af hverju félagið þarf öll þessi vöruhús, skip, bíla og lyftara. Upplýsingagjöfin er öll hugsuð til að bæta skilning aðila á markaðnum á rekstri okkar og til að auka traust. Við munum halda áfram að bæta okkur á þessari vegferð.“

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni í ViðskiptaMogganum í dag

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK