Heimila samstarf smærri lyfjaverslana

Smærri lyfjaverslanir fá heimild til samstarfs til að bregðast við …
Smærri lyfjaverslanir fá heimild til samstarfs til að bregðast við stöðunni vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað samstarf smærri lyfjaverslana til þess að bregðast við útbreiðslu kórónuveirunnar. Miðar heimildin að því að lyfjaverslanir með einn eða tvo afgreiðslustaði geti haldið sölustöðunum opnum eða vísað viðskiptavinum til annarra verslana þegar tímabundnar lokanir eru óhjákvæmilegar, án þess að eiga á hættu að missa viðskiptasambönd sín til lengri tíma. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef eftirlitsins.

Heimildin er undanþága frá samkeppnislögum sem bannar samstarf keppinauta. Auk þess er Félagi atvinnurekenda veitt undanþága frá 12. grein laganna, en lyfjaverslanir eru flestar undir hatti samtakanna.

Fram kemur á vef eftirlitsins að markmið undanþágunnar sé að vinna gegn því að ástand og aðstæður vegna faraldursins hafi þau áhrif að keppinautum fækki og samkeppni minnki á markaði fyrir smásölu lyfja. Þá sé jafnframt mikilvægt að búa í haginn fyrir nauðsynlegt aðgengi að lyfjum.

Undanþágan tekur til þess að lyfjaverslanir með 1-2 sölustaði geti átt sér samskiptavettvang þar sem unnt sé að kanna leiðir til að bregðast við yfirstandandi vanda. Hins vegar tekur undanþágan til þess að lyfjaverslanir innan hópsins, t.d. 2-4 verslanir, geti haft með samstarf sem m.a. getur falið í sér tímabundna lokun sölustaða, án þess að viðkomandi lyfjaverslun hverfi af markaði.

Skilyrði eru fyrir undanþágunni. Meðal annars að Lyfjastofnun geti verið þátttakandi í öllum samskiptum sem lúta að undirbúningi og skipulagningu samstarfs sem spretta kann upp af heimildinni. Með þeim hætti er tryggt að Lyfjastofnun hafi yfirsýn yfir viðkomandi samstarf og geti tryggt að farið sé að þeim kröfum sem settar eru í starfseminni, segir í niðurstöðu eftirlitsins.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK