Félag Skúla ekki tekið til skipta

108 milljónir voru færðar úr WOW air yfir í Títan …
108 milljónir voru færðar úr WOW air yfir í Títan fjárfestingafélag 6. febrúar 2019. Þrotabú flugfélagsins vill fá þetta fé til baka og reyna meðal annars að láta taka Títan til gjaldþrotaskipta í því skyni. mbl.is/RAX

Kröfu þrotabús WOW air um að Títan fjárfestingafélag ehf., sem er í eigu Skúla Mogensen, verði tekið til gjaldþrotaskipta, var hafnað með úrskurði Landsréttar nú 14. maí. Þar með staðfesti Landsréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. apríl. 

WOW air á að sögn fjárkröfu á Títan upp á 108 milljónir, sem greiddar voru úr WOW í Títan skömmu fyrir hrun félagsins. Þeirri greiðslu hefur þrotabúið ekki fengið að rifta, þannig að féð liggur samkvæmt því enn hjá Títan. Það hefur heldur ekki verið hægt að kyrrsetja eignir Títan, þar sem ekki reyndist unnt að benda á neinar eignir sem kyrrsetning yrði gerð í. 

Umræddu fé var komið úr WOW yfir til Títan sem greiðslu fyrir hlut í Cargo Express, sem var innt af hendi nokkru fyrir áætlaðan eindaga. Þrotabúið lítur svo á að það eigi kröfu um að fá þetta fé til baka frá Títan, en samkvæmt úrskurði Landsréttar er varhugavert að telja að krafan sé réttmæt. Því var ekki orðið við beiðni um að taka félagið til gjaldþrotaskipta.

Greiðslan sögð ótilhlýðileg

Á grundvelli sömu kröfu hafði þrotabúið í janúar óskað eftir kyrrsetningu á eigum Títan fjárfestingafélags, en um árangurslausa kyrrsetningu var að ræða. Allar eignir sem fundust í félaginu eru veðsettar Arion banka. Krafa þrotabúsins um riftun 108 milljóna greiðslunnar er enn til meðferðar fyrir dómstólum og var þingfest í héraðsdómi 19. febrúar 2020.

Þrotabú WOW telur samkvæmt úrskurðinum að líta verði til þess að þegar greiðslan fór fram hafi WOW air hf. verið komið í töluverð fjárhagsvandræði og vanskil við kröfuhafa. Títan fjárfestingafélag hafi því notið greinilegs forgangs umfram aðra kröfuhafa en eini eigandi WOW air hf. í gegnum Títan hafi verið áðurnefndur Skúli Mogensen. Þrotabúið byggir á því að Skúla hafi verið fullkunnugt um ógjaldfærni félagsins á umræddum tíma, enda haft umsjón með daglegum rekstri félagsins. Með greiðslunni hafi kröfuhöfum verið mismunað gróflega og það skömmu fyrir gjaldþrot félagsins. Þrotabúið telur greiðsluna því hafa verið ótilhlýðilega og að með henni hafi verið brotið gegn jafnræðisreglu gjaldþrotaskiptaréttar.

Úrskurður Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK