Sektaður um 20 milljarða vegna sambands við Epstein

Deutsche Bank er með starfstöðvar í 58 löndum víðsvegar um …
Deutsche Bank er með starfstöðvar í 58 löndum víðsvegar um heiminn. AFP

Deutsche Bank hefur verið sektaður um 150 milljónir Bandaríkjadala, tæplega 21 milljarði króna, fyrir að fylgjast ekki nægilega vel með færslum inn á og út af bankareikningum barnaníðingsins Jeffrey Epstein.

Fjármálaeftirlit New York-ríkis segir að bankinn hafi ekki sinnt skyldu sinni með því að leyfa færslum Epstein að fara í gegn án þess að gera athugasemdir við þær. Meðal færslna sem hefði átt að gera athugasemd við eru greiðslur til rússneskra fyrirsæta og úttektir í reiðufé sem nam allt að 800 þúsund dollurum, eða 112 milljónum króna.

Í yfirlýsingu frá bankanum segir að viðskiptasambandið við Epstein sé harmað og að bankinn hefði eytt næstum einum milljarði dollara í að þjálfa starfsfólk sitt og fjölga starfsfólki fjárglæpadeildar sinnar um 1.500 manns. BBC greinir frá.

Mistök að hefja samband við Epstein

„Við viðurkennum að það voru mistök að hefja viðskiptasamband við Epstein árið 2013 og að það voru veikleikar í kerfunum hjá okkur. Við höfum lært af þessum mistökum. Orðspor okkar er okkar verðmætasta eign og við sjáum mjög eftir viðskiptasambandinu við Epstein,“ segir í yfirlýsingu bankans.

Fjármálaeftirlit New York segir að bankinn, sem átti í viðskiptasambandi við Epstein frá 2013 til 2018, hafi hjálpað honum að millifæra milljónir dollara, m.a. yfir 7 milljónir til að leysa úr lagalegum vandræðum og meira en 2,6 milljónir til að borga kvenfólki, borga skólagjöld, leigu og önnur útgjöld.

„Hvort og þá að hvaða marki þessar greiðslur eða þetta reiðufé var notað af Epstein til að hylma yfir eldri glæpi eða að fremja nýja vitum við ekki, lögregluyfirvöld verða að finna út úr því. En staðreyndin er sú að þessar millifærslur og úttektir voru grunsamlegar og það hefði bankastarfsmönnum í mörgum deildum átt að vera augljóst,“ segir í yfirlýsingu frá fjármálaeftirlitinu.

Er þetta ekki í fyrsta sinn sem bankinn er sakaður um að leyfa grunsamlegum færslum sem tengjast glæpastarfsemi að fara fram óáreittar í gegnum kerfi sín. Bankinn var rannsakaður í nokkrum löndum eftir birtingu Panama-skjalanna árið 2016.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK