Uppsagnir og lokanir hjá Pizza Express

Kona með grímu gengur fram hjá veitingastað Pizza Express í …
Kona með grímu gengur fram hjá veitingastað Pizza Express í London. AFP

Veitingahúsakeðjan Pizza Express ætlar að leggja niður 1.100 störf og loka um 67 pítsustöðum í Bretlandi vegna „fordæmalausra áskorana“ af völdum kórónuveirunnar.

Keðjan, sem rekur 600 veitingastaði víðs vegar um heiminn, þar á meðal 448 í Bretlandi, er í meirihlutaeigu kínverska fyrirtækisins Hony Capital.

Til stendur að draga úr umfanginu í Bretlandi um 15% til að vernda um níu þúsund störf í landinu.

„Með sorg í hjarta ætlum við að loka hluta af veitingastöðunum okkar og þar með töpum við mikilvægum liðsmönnum,“ sagði framkvæmdastjórinn Zoe Bowley.

Pizza Express er nýjasti veitingastaðurinn í Bretlandi sem þarf að ráðast í niðurskurð vegna áhrifa kórónuveirunnar á breskan efnahag.

Öllum veitingastöðum Pizza Express var lokað 23. mars vegna útgöngubanns en undanfarinn mánuð hafa þeir opnað að nýju með takmörkunum.

50% afsláttur í boði stjórnvalda

Bresk stjórnvöld settu verkefnið „Eat Out to Help Out“ eða „Út að borða til aðstoðar“ í gang í dag. Þannig fá þeir sem ætla út að borða 50% afslátt af reikningnum og er þar miðað við tíu pund hæst á mann, eða tæpar 1.800 krónur á mann.

Með þessu vilja Bretar styðja við bakið á veitingahúsum í landinu.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK