Innlend kortavelta nam 81,3 milljörðum króna

Aukin bifreiðakaup í júlí má rekja til færri utanlandsferða segir …
Aukin bifreiðakaup í júlí má rekja til færri utanlandsferða segir í Hagsjánni. mbl.is/​Hari

Kortavelta Íslendinga innanlands jókst um 12% milli ára í júlí og nam 81,3 milljörðum króna miðað við fast verðlag en erlend kortavelta dróst saman um helming. Er þetta annar mánuðurinn í röð sem kortavelta eykst mikið innanlands en hún jókst um 17% í júní á milli ára.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans og þar segir einnig að kortavelta Íslendinga innanlands hafi tekið vel við sér á sumarmánuðum sem vegur að einhverju leyti upp á móti þeim samdrætti sem varð í apríl og maí „þegar samkomubann stóð sem hæst.“

Greiðslukortavelta Íslendinga erlendis nam 9,4 milljörðum í júlí sem er samdráttur upp á rúm 50% milli ára. „Þetta er töluvert minni samdráttur en sem nemur fækkun utanlandsferða Íslendinga í júlímánuði en þeim fækkaði um 78% milli ára,“ segir í Hagsjánni.

Mikill fjöldi fólksbíla nýskráður í júlí

Sérfræðingar Landsbankans segja að vísbendingar séu um að bifreiðakaup hafi aukist hjá landsmönnum sem kunni að vera afleiðing af færri utanlandsferðum og auknu svigrúmi til annarra stórkaupa.

„Í júlímánuði voru samtals 1.606 fólksbílar nýskráðir hér á landi, sem er mesti fjöldi í stökum mánuði síðan í maí í fyrra, og 29% fleiri en í júlímánuði fyrir ári síðan. Um nokkuð áberandi aukningu er að ræða á tímum þar sem almennt hægir á í atvinnu- og efnahagslífinu.

Af einstaka gerðum bíla er Model 3 frá bílaframleiðandanum Tesla algengasta tegundin sem hefur verið nýskráð það sem af er ári. Bílar sem ganga fyrir vistvænum orkugjöfum eru um helmingur allra nýskráninga það sem af er ári, samanborið við 18% á sama tíma í fyrra.“

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK