Erfitt að bera saman hrunið og kórónukreppuna

Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir ljóst að samrunum fyrirtækja hefur fjölgað og …
Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir ljóst að samrunum fyrirtækja hefur fjölgað og kalla sumir þeirra á ítarlega rannsókn. mbl.is/Hari

Mál samruna fyrirtækja sem hafa verið til meðferðar Samkeppniseftirlitsins á þessu ári eru þegar orðin fleiri en allar ákvarðanir í samrunamálum á síðasta ári. Forstjóri Samkeppniseftirlitsins segir ljóst að samrunum fyrirtækja hefur fjölgað og kalla sumir þeirra á ítarlega rannsókn. Í mörgum tilvikum er um að ræða samruna fyrirtækja á mörkuðum sem skipta almenning og efnahagslífið miklu máli. Þessi fjölgun á sér stað þrátt fyrir að veltumörk vegna tilkynningaskyldu hafi verið hækkuð á síðasta ári.

„Í samanburði við síðustu misseri er þetta talsvert mikið umfang samruna. Sumir þeirra tengjast Covid með beinum hætti, eins og samrunar í ferðaþjónustu og á einhverjum sviðum sem hafa orðið fyrir áföllum vegna Covid. En svo getur efnahagsástandið sem Covid leiðir af sér auðvitað líka haft óbein áhrif í átt til sameiningar,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Spurður hvort það valdi áhyggjum að fyrirtæki á mörkuðum sem skipta almenning og efnahagslífið miklu máli renni saman segir Páll:

„Það er okkar að meta hvert og eitt tilvik. Í sumum tilvikum eru samrunar framfaraskref. Í öðrum komum við auga á einhverjar samkeppnishindranir sem kalla á inngrip. Það er skoðað í hverju máli fyrir sig.“

Að mörgu að huga

Aðspurður segir hann að Samkeppniseftirlitið hafi búist við því að samrunum myndi fjölga vegna breytinga á efnahagsástandi af völdum Covid. Hann bendir á að einnig hafi verið mikið um samruna fyrirtækja í efnahagshruninu árið 2008 en þá hafi þeir oftar en ekki snúist um yfirtöku banka eða aðkomu lífeyrissjóða að fyrirtækjunum, ekki bara samruna fyrirtækja á markaði.

„Það er svolítið erfitt að bera saman hrunið og stöðuna núna. Núna eru auðvitað líka dæmi um að bankar séu með einhverjum hætti að taka þátt í rekstri fyrirtækja og eftir atvikum að taka þau yfir. Það er að mörgu að huga í þessu,“ segir Páll.

Geta reiknað með töfum

Aðspurður segir hann að álagið á Samkeppniseftirlitið hafi aukist vegna þessa. Í byrjun febrúar gaf Samkeppniseftirlitið út tilkynningu vegna  mikillar fjölgunar samrunamála. Tilkynningin var gefin út í þeim tilgangi að vekja athygli á auknum önnum en rannsóknir samrunamála njóta forgangs þar sem þau eru háð lögbundnum tímafresti. 

Óhjákvæmilega getur staðan því haft áhrif á önnur mál sem Samkeppniseftirlitið hefur til meðferðar.

„Til dæmis á grundvelli kvörtunar frá minni keppinautum eða hvernig sem það er. Við erum þá bara að vekja athygli þeirra fyrirtækja sem leita til okkar á því að þau geta reiknað með því að það verði einhverjar tafir á málum eða endurmat á forgangsröðun hjá okkur,“ segir Páll.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK