„Við erum mjög vön samkeppni“

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair segir að kaup alþjóðlega fjárfestingasjóðsins Bain Capital á 16,6 prósenta hlut í Icelandair Group muni styrkja efnahagsreikning fyrirtækisins mikið og gera félaginu kleift að grípa fleiri tækifæri.

„Þetta styrkir bæði lausafjár- og eiginfjárstöðu félagsins mjög mikið. Þetta er mjög ánægjulegt og mikilvægt fyrir félagið. Bæði er óvissa enn þá mikil fyrir flugfélög í heiminum og mjög gott að styrkja þar af leiðandi efnahagsreikninginn og jafnframt horfum við til þess að með þessu móti eigum við auðveldara með að grípa þau tækifæri sem eru á okkar mörkuðum,“ segir Bogi.

„Það er líka mjög jákvætt að svona öflugur og viðurkenndur sjóður eins og Bain sjái tækifæri í viðskiptalíkani Icelandair Group og séu sammála okkar sýn.“

Bain Capital hef­ur gert samn­ing um kaup á 16,6% hlut …
Bain Capital hef­ur gert samn­ing um kaup á 16,6% hlut í Icelanda­ir Group. mbl.is/Árni Sæberg

Innkoma Play hafi lítil áhrif á Icelandair

Bogi segir Icelandair vant að starfa í miklu samkeppnisumhverfi og að innkoma flugfélagsins Play á flugmarkaðinn muni ekki hafa teljandi áhrif á rekstur félagsins.

„Við höfum náttúrulega verið að vinna í mjög mikilli samkeppni undanfarin ár og verðum það áfram. Við erum að keppa við flest af stærstu flugfélögum í Norður-Ameríku og í Evrópu. Þannig að við erum mjög vön samkeppni og ætlum að standa okkur í henni hér eftir sem og hingað til,“ segir hann.

„Eitt flugfélag hefur ekki gríðarleg áhrif á okkur né aðra vegna þess að eins og fyrir COVID þá voru kannski 25-30 flugfélög að fljúga til og frá Íslandi. Við þurfum bara að hafa trú á okkar viðskiptalíkani sem við gerum og gera betur í dag heldur en við gerðum í gær. Það er okkar fókus. Samkeppnin hefur alltaf verið mjög mikil og verður áfram.“

Bandaríkin enn þá lokuð ferðamönnum

Bogi er nokkuð bjartsýnn fyrir komandi mánuði þrátt fyrir áframhaldandi óvissu vegna kórónuveirufaraldursins.

„Við erum að sjá bókanir sterkar frá sérstaklega Norður-Ameríku sem er mjög jákvætt. Í dag erum við að fljúga til átta áfangastaða í Bandaríkjunum og fimmtán í Evrópu þannig að við erum búin að setja leiðarkerfið mjög vel í gang og höldum áfram að bæta í á næstu vikum. Það er frábært að þetta sé allt að fara í gang.

„Auðvitað er einhver óvissa í þessu enn þá, Bandaríkin eru ekki enn þá opin fyrir ferðamenn til dæmis og við þurfum hér eftir sem hingað til í þessu ástandi að vera mjög sveigjanleg og kvik,“ segir Bogi.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK