Skipta rekstri Skeljungs í tvö dótturfélög

Skeljungur rekur meðal annars eldsneytisstöðvar Orkunnar.
Skeljungur rekur meðal annars eldsneytisstöðvar Orkunnar.

Stjórn Skeljungs hf. hefur ákveðið að stofna tvö sjálfstæð dótturfélög og færa mest allan rekstur félagsins í þau tvö. Kemur þessi ákvörðun í kjölfar þess að farið var í einkaviðræður við tiltekinn kaupendahóp vegna P/F Magn í Færeyjum og í samræmi við fyrri tilkynningu Skeljungs um að setja ákveðnar fasteignir félagsins í formlegt söluferli.

Fyrra félagið verður fyrir starfsemi á einstaklingsmarkaði. „Starfsemi þess félags verður einkum á sviði þjónustu til einstaklinga svo sem, rekstur þjónustustöðva Orkunnar, Extra, 10-11, Löðurs bílaþvottastöðva, apóteka Lyfsalans og Lyfjavals, rekstri á Gló og ýmsum fasteignum tengdum framangreindum rekstri. Þá mun félagið halda á eignarhlutum í Brauð & Co ehf. og Wedo ehf. (Heimkaup),“ segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Seinna félagið verður fyrir starfsemi fyrirtækjasviðs. „Starfsemi þess félags verður einkum sala og þjónusta við fyrirtæki, dreifing og innkaup á eldsneyti, smurolíum, hreinsi- og efnavörum, áburði sem og öðrum vörum og þjónustuþáttum til fyrirtækja. Þjónusta og sala til stórnotenda, í útgerð, flugi og verktöku verður einnig hluti af starfseminni ásamt fasteignum tengdum framangreindum rekstri. Þá mun félagið halda á eignarhlutum í Íslenska Vetnisfélaginu ehf., EAK ehf., Barki ehf. [innsk. blaðamanns: nf. Barkur ehf] og fleiri tengdum félögum,“ segir í tilkynningunni.

Skeljungur verður móðurfélag félaganna tveggja, en verkefni móðurfélagsins munu í auknum mæli snúa að stýringu eignarhluta í rekstrarfélögunum auk annarra fjárfestinga. Áfram er gert ráð fyrir að Skeljungur verði skráð félag á markaði. Hefur stjórnin ákveðið að boða til hluthafafundar vegna þessa og annarra væntra breytinga sem talið er nauðsynlegt að fá afstöðu hluthafa til. Tilgreind eru fjögur atriði í þessu sambandi í tilkynningunni:

  1. Heimild til sölu á dótturfélagi Skeljungs hf., P/F Magn;
  2. Heimild til uppskiptingu rekstrar og stofnun dótturfélaga í samræmi við ofangreint;
  3. Tillaga að breytingu á tilgangi félagsins í samþykktum þannig að aukin áhersla verði lögð á stýringu eignarhluta í rekstrarfélögum og fjárfestingastarfsemi;
  4. Heimild til að hefja endurkaup á eigin bréfum félagsins með tilboðs fyrirkomulagi.
mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK