Ásthildur stjórnarformaður Empower

Stjórn Empower ásamt framkvæmdastjóra Empower. Frá vinstri: Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, …
Stjórn Empower ásamt framkvæmdastjóra Empower. Frá vinstri: Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, Dögg Thomsen, Ásthildur Otharsdóttir og Jóhann Þorvaldur Bergþórsson. Ljósmynd/Ólafur Már Svavarsson

Ásthildur Otharsdóttir hefur tekið við stjórnarformennsku hjá nýsköpunarfyrirtækinu Empower. Hún tekur við sem fulltrúi Frumtaks Ventures sem leiddi 300 milljóna króna fjármögnun í Empower til að byggja upp hugbúnaðarlausnina Empower Now.

Auk Ásthildar sitja í stjórn þau Dögg Thomsen, einn stofnenda og í framkvæmdastjórn Empower og Jóhann Þorvaldur Bergþórsson, frumkvöðull og hugbúnaðarsérfræðingur.

Hugbúnaðurinn styður fyrirtæki og stofnanir við að ná betri árangri á sviði jafnréttis og fjölbreytni með mælaborði, markmiðasetningu og örfræðslu. Fyrirhugað er að setja hugbúnaðinn á alþjóðamarkað haustið 2023, að því er kemur fram í tilkynningu.

Ásthildur er meðeigandi og fjárfestingastjóri hjá Frumtak Ventures. Áður var hún stjórnarformaður félagsins frá 2015-2021. Ásthildur hefur gegnt stjórnarsetu um árabil í ýmsum félögum og í dag er hún stjórnarformaður Controlant, Kaptio og 50skills, auk Empower. Hún var stjórnarformaður Marel á árunum 2014-2021 og sat í stjórn áður frá árinu 2010.

Ásthildur var í stjórn Icelandair Group á árunum 2012-2019 og sat í háskólaráði Háskóla Íslands frá 2016-2022. Áður leiddi Ásthildur viðskiptaþróun hjá Össuri, þar með talið yfirtökur og fjármögnun, og starfaði sem rekstrarráðgjafi hjá alþjóðlega ráðgjafafélaginu Accenture. Ásthildur er með MBA frá Rotterdam School of Management og próf í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Ásamt stjórnarsetu í fyrirtækjum í eignasafni Frumtaks situr hún í stjórn Íslandsstofu og ráðgjafaráði Boards Impact Forum.

„Það er virkilega spennandi að fá að taka þátt í uppbyggingu Empower Now fyrir alþjóðamarkað. Kröfur um ábyrga stjórnarhætti eru alltaf að aukast ásamt áherslu á jafnrétti og fjölbreytni á vinnustöðum. Það er mikilvægt fyrir fyrirtæki að vera með þessi mál á hreinu, bæði vegna aukinnar kröfu fjárfesta og samfélagsins og til að auka samkeppnishæfni sína. Einnig til að laða til sín og viðhalda góðu og hæfu starfsfólki. Það kallar á sérhæfðar lausnir til að styðja við þennan mikilvæga málaflokk. Hugbúnaðarlausnin Empower Now mun færa stjórnendum heildræna nálgun sem hjálpar fyrirtækjum að ná sínum markmiðum á sviði jafnréttis og fjölbreytni. Ég hlakka til vegferðarinnar sem framundan er með frábæru teymi Empower, markmiðið er að verða leiðandi á þessu sviði á alþjóðavísu,” segir Ásthildur í tilkynningunni.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK