Nova afpantaði auglýsingar á RÚV í kringum HM

Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.
Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova. Ljósmynd/Gunnar Svanberg

Fjarskiptafélagið Nova afpantaði auglýsingar fyrirtækisins sem til stóð að sýna í Ríkissjónvarpinu (RÚV) í kringum HM í knattspyrnu. Þess í stað auglýsir fyrirtækið undir öðrum liðum hjá ríkisfjölmiðlinum.

Þetta staðfestir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova, í samtali við MBL. Um síðustu helgi var greint frá því að Stjarnan ehf., rekstraraðili Subway á Íslandi, hefði afpantað auglýsingar fyrir Subway sem til stóð að sýna í kringum HM í knattspyrnu. RÚV er sem kunnugt er með sýningarréttinn á HM í knattspyrnu sem nú fer fram í Katar.

Í skriflegu svari sem Margrét sendi mbl.is kemur fram að félagið starfi eftir áherslum í samfélags- og umhverfismálum og að samfélagslegi þátturinn standi fyrirtækinu næst.

„Okkur fannst mikilvægt að staldra við og spyrja okkur mikilvægra spurninga í tengslum við HM í Katar. Sérstaklega í ljósi þeirra þróunar sem var stuttu fyrir mót,“ segir Margrét í svarinu.

Hún bendir á að Nova hafi verið leiðandi í tæknibreytingum og þeim samfélagsbreytingum sem koma til með tilkomu tækninnar.

„Við höfum litið til ábyrgðar í tengslum við okkar neikvæða fótspor sem er í formi ofnotkunar internetsins og viljum vera leiðandi og hvatning í geðræktarmálum,“ segir hún og bendir jafnframt á að félagið hafi stutt við ýmsa þætti, til að mynda jafnrétti og fjölbreytni.

„Við vitum að við erum ekki að breyta heiminum en við þurfum að líta okkur nær þegar við setjum niður á blað fyrir hvað við viljum standa fyrir og hvaða þættir það eru sem við viljum hafa áhrif á samfélagið. Samræmist það sem við viljum standa fyrir í okkar starfi? Hvað þýðir það í okkar starfi? Niðurstaðan var því að vera ekki að kaupa birtingar í auglýsingapláss tengdu HM í Katar, það þýðir þó ekki að við erum ekki að auglýsa. Við auglýsum á öðrum tíma,“ segir Margrét.

Hún segir að félagið hafi ekki viljað hampa sér af þessu og frekar starfað eftir þeirri stefnu sem mótuð hefur verið í ESG málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK