Aukin samkeppni og upptekinn forstjóri

Hér er Elon Musk í lok september að kynna nýtt …
Hér er Elon Musk í lok september að kynna nýtt flaggskip Tesla fyrirtækisins, Model X, í Kaliforníu. AFP/Susana Bates

Tesla tapaði ríflega tveimur þriðju af markaðsvirði sínu árið 2022.

Á pappírunum gekk allt vel hjá fyrirtækinu sem sigraðist á birgðavandamálum og hagnaðist um nærri níu milljarða dollara á fyrstu þremur fjórðungum ársins þrátt fyrir að hafa lagt í himinháan kostnað.

Hins vegar hríðféllu hlutabréf í fyrirtækinu á Wall Street og svo gæti farið að fyrirtækið yrði eitt af þeim fyrirtækjum ársins 2022 sem hafa staðið sig verst á markaði segir á vefsíðunni The Motley Fool.

Þar gætu margir þættir spilað inn í, hik og ótti um vaxandi eftirspurn eftir rafbílum, vandræðagangur eigandans, Elon Musk, eftir yfirtöku samfélagsmiðilsins Twitter svo eitthvað sé nefnt.

Aukin samkeppni á rafbílamarkaðnum

Musk hefur oft lýst því yfir að Tesla muni verða verðmætasta fyrirtæki heims og í desember lýsti hann því yfir á Twitter að þrátt fyrir að hlutabréfaverð sé háð tilfinningalegum þáttum muni Tesla „verða verðmætasta fyrirtæki í heimi á innan við fimm árum“.

Þá sagði hann að viðskiptaaðstæður væru engum í hag, ekki síst háir vextir og bað fylgjendur sína að líta fram hjá óförum sínum við stjórnvölinn á Twitter.

En að mati sumra greinenda eru vandamálin hjá Tesla alvarlegri og tengist frekar aukinni samkeppni á rafbílamarkaðnum heldur en einhverjum óförum Musk hjá Twitter.

Allt bendir til þess að nýtt ár verði mikið „framboðsár“ á rafbílamarkaðnum sagði sérfræðingurinn Adam Jonas hjá Morgan Stanley.

„Það eru erfiðleikar sem þarf að yfirstíga,“ bætti Jonas við og vitnaði til aukinnar samkeppni og versnandi efnahags, þar sem framfærslukostnaður hækkar stöðugt með hárri verðbólgu.

Sjaldgæfir afslættir

Árið 2023 munu lágstemmd hljóð rafbílanna koma frá öðrum rafbílum en þar sem hefðbundnir bensín bílaframleiðendur munu rúlla út rafmódelum á fordæmalausum hraða telja sumir.

Tesla Módel Y og Módel 3, nýjustu bílar fyrirtækisins kynntir …
Tesla Módel Y og Módel 3, nýjustu bílar fyrirtækisins kynntir í Bangkok í Taílandi 7. desember sl. AFP/Lillian Suwanrumpha

Í sama flokki lúxusbifreiða og Tesla eru nú komnir bílar frá Mercedes-Benz, BMW, Audi, Polestar og Rivian.

Á meðan fyrirtæki Musk í Texas náði 65% markaðshlutdeild á fyrstu níu mánuðum ársins spáðu sérfræðingar S & P Global því að markaðshlutdeild Tesla myndi minnka og verða rétt tæplega 20% árið 2025.

Ástandið í Kína hjálpar heldur ekki til. Samkvæmt heimildum fréttastofu AFP hefur framleiðslu verið hætt í verksmiðju Tesla í Shanghai vegna Covid-tengdra mála.

Til að auka söluna hefur Tesla boðið viðskiptavinum sínum sjaldgæfan 7.500 dollara afslátt af rafbílunum Tesla Model 3 og Model Y, ásamt 10.000 mílna hraðhleðslu.

Verð hlutabréfanna í sögulegu lágmarki

Tesla, sem að hluta til á vinsældir sínar að þakka stórstjörnunni Elon Musk, á enn sína hörðu aðdáendur og fyrirtækið er enn talið óumdeilt hvað varðar tækni, kostnaðarstjórnun og stærðarhlutföll á ört vaxandi markaði.

Verðbréfafyrirtækið Robert W. Baird telur að samstæðan sé „besti kosturinn á rafbílamarkaðinum“ og mælir enn með kaupum á hlutabréfum í Tesla þrátt fyrir hrunið, og ef spádómurinn er réttur er góður tími til kaupa því hlutabréf fyrirtækisins eru hugsanlega í sögulegu lágmarki.  

Það er hins vegar skugginn af Twitter sem er að flækja málin og Dan Ives, forstjóri Wedbush, sagði í vikunni að Tesla þyrfti „forstjóra til að sigla fyrirtækinu í gegnum þennan erfiða storm“ og ekki yfirmann sem hugsar mest um Twitter.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK