Hef gaman af því að grúska

Ólafur við höfnina í Eyjum. Gráa skipið í bakgrunni er ...
Ólafur við höfnina í Eyjum. Gráa skipið í bakgrunni er Galileo sem hann hefur skrifað um. Ljósmynd/Ómar Garðarsson

Ólafur Ragnarsson hefur haldið úti bloggsíðu um íslensk kaupskip síðan 2009. Á síðunni, Fragtskip Óla Ragg, sem finna má á slóðinni www.fragtskip.123.is, er að finna hafsjó af fróðleik.

„Mig hefur tekið það mjög sárt að horfa upp á eina stétt manna eins og íslenska farmenn vera að „blæða“ út. Þessi síða mín var í upphafi ætluð sem vettvangur fyrir spjall um þessa stétt,“ segir Ólafur. Hann er orðinn 79 ára gamall en slær ekki af. „Ég tek nú ekkert fyrir þetta. Ég hef bara gaman af því að grúska. Mín er öll ánægjan.“

Í skrifum á síðunni segir Ólafur sögu viðkomandi skips og greinir frá hver var skipstjóri og vélstjóri.

„Það er oft bara talað um skipstjórana en ég vil hafa vélstjórann með. Þessir tveir menn eru aðalmenn skipsins.“

Ólafur er duglegur við að setja inn nýjar færslur á síðuna og notar einnig Facebook til að dreifa þeim. Hann reynir að setja ekki tæknivandamál fyrir sig. „Ég hef stundum lent í bölvuðum ógöngum en ég hef alltaf getað snúið mig út úr því á endanum.“

Hryggbrotnaði úti á sjó

Sjálfur var Ólafur til sjós í yfir hálfa öld.

„Fyrst var ég nú á fiskiskipum, á togurum. Svo datt ég niður í lest á skipi og hryggbrotnaði og sá þá sæng mína uppreidda. Þá fór ég aftur í Stýrimannaskólann og tók farmannapróf. Eftir það var ég hjá Ríkisskipum, var þar orðinn yfirstýrimaður og afleysingaskipstjóri. Svo fór ég út og sigldi í ein 17 ár, bæði hjá Svíum og Dönum.“

Eins og stundum vill verða tóku örlögin í taumana.

„Ég ætlaði mér aldrei að verða hvorki gamall né veikur en svo skeður það að ég fæ krabbamein. Ég bjó í Svíþjóð og fór til læknis út af bakflæði. Hún ætlaði að senda mig í speglun en þá var hringt frá útgerðinni og ég var sendur til Falklandseyja og víðar. Í þeirri ferð fór ég að finna fyrir því að ég þurfti að reyna meira á mig við að míga og að gera það oftar. Þetta stóð yfir í viku. Þegar heim var komið álpaði ég þessu út úr mér við lækninn fyrir tilviljun og þá var þetta greint. Fyrsta sem flaug í gegnum hausinn á mér var að þetta væri nú gott, þá þyrfti ég ekki að fara út á sjó á næstunni!“ segir hann og hlær.

„En þarna sá ég að fyrst ég gat orðið veikur þá hlaut ég að geta orðið gamall líka. Og þá ákvað ég að flytja aftur til Íslands.“

Borinn á höndum í Eyjum

Ólafur er Borgnesingur að upplagi en kom sér fyrir í Vestmannaeyjum og sér ekki eftir því.

„Ég var nú hér mikið í gamla daga. Svo var ég giftur konu úr Eyjum þó við byggjum aldrei þar saman. Hér hef ég verið borinn á höndum. Ég fer helst ekki úr Eyjum nema ég sé neyddur til þess,“ segir Ólafur sem einmitt hefur mátt dröslast upp á land undanfarið.

„Já, nú er ég lentur í krabbameinsveseni aftur. Ég er nýkominn úr sex vikna meðferð í Reykjavík. Það góða við það er að ég hef verið hálf-lystarlaus og hef horast svolítið niður. Ég mátti vel við því.“

Mikill fróðleikur á einum stað

Skrif Ólafs hafa að vonum vakið mikla athygli. Einn þeirra sem sóttu í fróðleik hans var Páll Baldvin Baldvinsson þegar hann vann að mikilli stríðsárabók sinni fyrir skemmstu.

„Hann sá að ég var með umfjöllun og myndir af því þegar gerð var árás á Súðina á stríðsárunum. Við ræddum saman og hann sagði: Þú gerir þér enga grein fyrir því hvað þú hefur safnað miklum fróðleik á einn stað.“

Afurð Dags. Meðalverð
Gellur 6.12.17 706,00 kr/kg
Þorskur, óslægður 22.2.18 236,06 kr/kg
Þorskur, slægður 22.2.18 269,61 kr/kg
Ýsa, óslægð 22.2.18 246,18 kr/kg
Ýsa, slægð 22.2.18 238,74 kr/kg
Ufsi, óslægður 22.2.18 51,68 kr/kg
Ufsi, slægður 22.2.18 91,40 kr/kg
Djúpkarfi 7.2.18 104,00 kr/kg
Gullkarfi 22.2.18 209,84 kr/kg
Litli karfi 14.2.18 18,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

23.2.18 Björgvin EA-311 Botnvarpa
Karfi / Gullkarfi 5.193 kg
Samtals 5.193 kg
22.2.18 Sigrún EA-052 Handfæri
Þorskur 411 kg
Samtals 411 kg
22.2.18 Fríða Dagmar ÍS-103 Landbeitt lína
Þorskur 545 kg
Ýsa 276 kg
Steinbítur 269 kg
Samtals 1.090 kg
22.2.18 Gunnvör ÍS-053 Rækjuvarpa
Ýsa 300 kg
Þorskur 272 kg
Samtals 572 kg
22.2.18 Þorlákur ÍS-015 Dragnót
Þorskur 2.316 kg
Skarkoli 157 kg
Ýsa 113 kg
Steinbítur 54 kg
Þykkvalúra / Sólkoli 21 kg
Lúða 15 kg
Samtals 2.676 kg

Skoða allar landanir »