„Aldrei lent í öðru eins veðri“

Litið til baka. Sigurður segir undraverða hluti hafa átt sér ...
Litið til baka. Sigurður segir undraverða hluti hafa átt sér stað í Djúpinu þessa nótt. mbl.is/Árni Sæberg

Hálf öld er um þessar mundir liðin frá því að mikið illviðri gekk yfir landið, með miklu frosti og roki. Reyndist það mannskaðaveður. Mótorbáturinn Heiðrún II frá Bolungarvík fórst þá með sex manna áhöfn, þar af föður og tveimur sonum, sem og breski togarinn Ross Cleveland með 19 menn innanborðs. Skipstjóri Ross Cleveland bað fyrir ástarkveðjur til eiginkvenna og barna í síðasta kallinu sem barst frá togaranum.

„Ég hef aldrei lent í öðru eins veðri og þessa daga,“ segir Sigurður Þ. Árnason, fyrrverandi skipherra Landhelgisgæslunnar, en hann stýrði áhöfn Óðins í gegnum veðurofsann og til bjargar skipverjum breska togarans Notts County, sem strandað hafði á Snæfjallaströnd. „Ég er að verða níræður núna, og maður hefur aldrei starfað við neitt nema sjó og aftur sjó. Samt hef ég ekki séð nokkuð þessu líkt.“

Blaðamaður heimsótti Sigurð og konu hans, Halldóru Eddu Jónsdóttur, á heimili þeirra í Laugardalnum. Hann segist leiða hugann oft að atburðum þessarar fyrstu helgar í febrúar 1968.

Ísingin þakti Óðin að utan og hlóðst hún á hann ...
Ísingin þakti Óðin að utan og hlóðst hún á hann með hverri öldu, eins og á önnur skip í Djúpinu. Þessa mynd tók Valdimar Jónsson, loftskeytamaður á Óðni, eftir að veðrið lægði. Ljósmynd/Valdimar Jónsson

Þótti ekki treystandi á ratsjá

„Við vorum að koma sunnan að, þegar þetta byrjaði. Ég vissi að það væri að ganga í brælu og ég ætlaði að bíða hana af mér við akkeri inni á Önundarfirði,“ segir Sigurður. Þar dvaldi áhöfnin um nokkra stund, eða þangað til klukkan tíu þetta laugardagskvöld þegar breski togarinn Northern Prince kallaði í varðskipið og tilkynnti að leki væri kominn að öðrum breskum togara, Wyre Mariner, sem staddur væri 5,8 sjómílum suðvestur af Rit.

Varðskipið lagði þegar af stað í átt til togarans og var áætlað að það yrði á staðnum eftir tvær klukkustundir.

„Þegar við komum norður í Djúp um miðnætti, þá kemur í ljós að lekinn er ekki svo mikill að hann treysti sér ekki til að sigla til Ísafjarðar.“

Óðinn lagðist þá í var undir Grænuhlíð, eins og enn tíðkast. Voru þar þá einir 22 togarar. Um nóttina versnaði veðrið til muna og ekki þótti treystandi á ratsjá Óðins vegna ísingar. Til að forðast árekstra við önnur skip hélt varðskipið inn í Jökulfirði.

„Vissi maður ekki þá að það væru þessi ósköp á ferðinni, sem síðar um nóttina komu í ljós.“

Notts County strandar

Breski togarinn Notts County var í mynni Ísafjarðardjúps þegar óveðrið skall á. Var hann þá búinn að vera á Íslandsmiðum í nokkra daga, að því er fram kemur í bókum Steinars J. Lúðvíkssonar og Óttars Sveinssonar um hamfarirnar.

Stendur í þeim ritað að um hádegi hafi ísing byrjað að hlaðast á togarann og hreyfingar hans orðið þyngri. Var áhöfninni þá skipað út að höggva ísinn, þrátt fyrir bágborinn verkfærakost. Um kvöldið var ástandið svo orðið ískyggilegt en skipið var þá orðið yfirísað, báðar ratsjárnar óvirkar vegna ísingar og dýptarmælirinn virkaði ekki vegna hafróts. Loftskeytamaðurinn hafði þá heyrt síðasta kallið frá Ross Cleveland, sem greint er frá á síðu 32, og ef til vill hugsuðu skipverjarnir hvort þeir færu niður næst.

En skyndilega var eins og skipið tæki stökk og í fyrstu vissu menn ekki hvað var að gerast. Ærandi brimgnýr kæfði flest annað en í gegn heyrðust lætin þegar skipið nuddaðist við grýttan sjávarbotninn.

Skipið hafði strandað á Snæfjallaströnd.

Björgunarbátar voru settir út en skipstjórinn gaf fyrirmæli um að ekki mætti fara út í þá. Þeir áttu að vera til taks við síðuna ef skipið skyldi brotna í briminu. Þegar fyrsti gúmbáturinn var sjósettur gekk sjór yfir skipið og hreif hann með sér. Einn hásetanna kastaði sér um borð í bátinn meðan hann flaut með síðunni. Gekk þá aftur sjór yfir skipið og hvolfdi bátnum og maðurinn fór í sjóinn en á undraverðan hátt tókst skipsfélögum hans að bjarga honum um borð. Maðurinn var mjög kaldur og fljótlega fór að draga verulega af honum. Lést hann í höndum félaga sinna.

Togarinn Notts County, sem strandaði á Snæfjallaströndinni.
Togarinn Notts County, sem strandaði á Snæfjallaströndinni.

Sendingar Heiðrúnar slitnuðu

Um tólf tímum áður, klukkan 12.20 á hádegi sunnudagsins, hafði Ísafjarðarhöfn tilkynnt varðskipinu Óðni að mótorbáturinn Heiðrún II ÍS-12 hefði farið frá bryggju í Bolungarvík og væri í Djúpinu með bilaða ratsjá og dýptarmæli. Mælirinn komst þó fljótlega í lag og ætlaði áhöfnin þá að setja út ljósdufl til að lóna við.

„Klukkan 21.55 óskaði Heiðrún eftir að við kæmum til hennar, til að staðsetja bátinn, þar sem hann andæfði við ljósdufl undir Bjarnanúp, að hann taldi,“ segir Sigurður.

Komu skilaboðin í gegnum Guðmund Péturs ÍS-1, sem var við bryggju á Ísafirði og hafði verið í sambandi við bátinn, en mjög illa gekk að hafa samband við Heiðrúnu þar sem sendingar frá henni slitnuðu mikið í sundur. Hún virtist þó heyra vel til annarra stöðva.

„Klukkan 23.15 töldum við okkur vera við hlið Heiðrúnar, 1,2 sjómílum sunnan við Bjarnanúp, og var bátnum tilkynnt um staðinn. Skömmu áður en komið var til bátsins herti veðrið þó mjög mikið og um sama leyti fór Kelvin Hughes-ratsjáin að sýna illa vegna ísingar, en Sperry-ratsjáin var þegar óvirk af sömu orsökum.“

Skip sáust ekki í ratsjánni

„Það hvarflaði að manni, þegar maður var inni í Djúpi í þessu veðri, með ekkert skyggni, að fara út á rúmsjó og andæfa þar. Árekstrarhættan var svo mikil. Ég hef ekki ennþá heyrt neinar áreiðandi tölur, hversu margir togarar voru í vari í Djúpinu, en fjöldinn var þónokkur,“ segir hann og bætir við að hann telji að undir Grænuhlíðinni þessa nótt hafi verið um tuttugu til fjörutíu íslenskir togarar.

„Þá hef ég aldrei, hvorki fyrr né síðar, lent í annarri eins krísu hvað varðar að sjá í kringum skipið. Það var ekki hægt að opna gluggana í brúnni vegna veðurs. Ratsjáin var nánast það eina sem hélt okkur frá því að sigla upp á land, því í henni mátti sjá móta fyrir útlínum strandlengjunnar. Smærri hlutir á borð við skip sáust ekki.“

Var ákveðið að lóna undir Grænuhlíð til að freista þess að hreinsa loftnetið.

„Þá voru góð ráð dýr því það var ekki viðlit að fara að senda mann upp stigann utan á turninum,“ segir Sigurður. „En lítil lúga var aftan við ratsjárloftnetið og ég spurði II. stýrimann, Pálma Hlöðversson, hvort hann treysti sér til að fara upp í turninn innan frá. Hugsaði ég að ef ég bakkaði skipinu upp í veðrið þá fengist skjól við lúguna og hann kæmist upp til að hreinsa ratsjána. Hann játti þessu, fór upp og þetta tókst.“

Í sömu andrá og Pálmi nær að hreinsa loftnetið kemur tilkynning frá Ísafirði um strand Notts County. Tekur varðskipið stefnuna þangað.

„Á leiðinni að Notts County töldum við okkur sjá í ratsjánni skip, sem gæti verið Heiðrún. Var hún þá á svipuðum stað og áður, en þá var samband við bátinn rofið og heyrðist ekkert í honum eftir það. Bolvíkingarnir báðu okkur um að blindsenda upplýsingar til Heiðrúnar, um að leita frekar vars undir Grænuhlíðinni. Þar væri minni vindur. En við vissum aldrei hvort þau skilaboð bárust áhöfninni.“

Togarinn Notts County á strandstað. Þarna var búið að bjarga ...
Togarinn Notts County á strandstað. Þarna var búið að bjarga skipverjum og er myndin tekin daginn eftir, þegar sótt var lík þess sem lést um borð. Ljósmynd/Valdimar Jónsson

Á gúmbát yfir í togarann

Þegar komið var á strandstaðinn um miðnætti aðfaranótt mánudagsins geisaði ofsaveður á þessum slóðum og ljóst orðið að langharðast var veðrið sunnan við Bjarnanúp. Ekkert þótti hægt að gera að svo stöddu, til bjargar bresku skipverjunum. Einum og hálfum tíma síðar tilkynnti togarinn Kingston Andalusite að Ross Cleveland hefði sokkið tveimur tímum áður. Enginn skipverja hefði komist af.

Varðskipið hóf aftur leit að Heiðrúnu klukkan tvö um nóttina og hélt henni áfram til klukkan sjö, án árangurs. Aftur var haldið á strandstað Notts County klukkan átta og var þá mun meiri vindur þar, undir Bjarnanúpnum, en vestar í Djúpinu. Það var fyrst um klukkan 13.35 sem fært þótti að hefja björgunaraðgerðir:

„Ég spurði þá Pálma og Sigurjón [Hannesson, I. stýrimann] hvort þeir treystu sér til að fara yfir í togarann á Zodiac-bátnum, ef ég færi eins grunnt á skipinu og ég treysti mér. Þeir þyrftu þá að brúa tvö hundruð, þrjú hundruð metra. Þeir játtu því báðir,“ segir Sigurður.

„Þá um leið fór ég að efast, var þetta rétt ákvörðun? En, maður varð að ýta því frá sér og halda áfram með það sem búið var að ákveða.“

Zodiac-báturinn var með utanborðsmótor og um borð voru tveir óútblásnir 10 manna björgunarbátar, sem nýttust þeim Pálma og Sigurjóni sem ballest á leiðinni yfir.

Sigurður segir að þarna hafi ekki verið langt um liðið síðan gúmbátarnir komu fram á sjónarsviðið. Þar áður voru aðeins trébátar um borð í varðskipunum. „Þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum.“

„Eftir að báturinn var farinn frá okkur hafði ég samband við Ísafjörð, á rás 16, til að láta vita af því hvað væri að gerast. Bara svo það vissi einhver af því, annar en bara við. Á sama tíma var ég í sambandi við Pálma og Sigurjón og sagði þeim að fara ekki frá togaranum fyrr en við værum tilbúnir, það er komnir eins nálægt og ég þyrði.“

Einn metri frá botnstykkinu

Voru þessar mínútur langar, sem biðin tók eftir þeim Pálma og Sigurjóni?

„Blessaður vertu, maður hafði engan tíma til að velta því fyrir sér. Það var svo mikið að gerast,“ segir Sigurður og tekur dæmi:

„Ég var með loftskeytamanninn á dýptarmælinum, og þegar hann segir mér að það séu einn til tveir metrar undir skipinu, þá kemur ekki að gagni að hugsa um neitt annað en það.“

Ljóst er að varðskipið hefur ekki mátt fara mikið nær landi.

„Hann tjáði mér að það væri einn metri til botns undir botnstykki skipsins. Ég vissi hins vegar sem var, að botnstykkið var ekki á neðsta hluta skipsins.“

Pálma og Sigurjóni gekk greiðlega að ná mönnunum í björgunarbátana og var aðgerðum lokið um 14.30. Var þá haldið í land á Ísafirði, þar sem læknir tók við þeim.

Á þriðjudeginum var haldið á strandstað til þess að sækja lík skipverjans sem lést og það flutt til Ísafjarðar. Síðan hélt varðskipið þaðan til þess að leita að Heiðrúnu í Jökulfjörðum. Sú leit bar engan árangur.

Bjarnanúpur og Snæfjallaströnd handan Ísafjarðardjúps.
Bjarnanúpur og Snæfjallaströnd handan Ísafjarðardjúps. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

„Við skiljum þetta ekki“

„Ég hef oft hugsað það, ef við hefðum séð Heiðrúnu og komið að henni, hvort við hefðum getað aðhafst nokkuð þessa nótt,“ segir Sigurður.

„Það eru að eiga sér stað þarna í Djúpinu undraverðir hlutir, þegar fimm hundruð upp í átta hundruð tonna skip eru að farast vegna veðurofsans,“ segir hann og bendir á ótrúlega lífsbjörg Harry Eddom, skipverjans af Ross Cleveland, sem fannst kaldur og hrakinn í landi.

„Fyrir okkur sem þekkjum þetta, við skiljum þetta ekki. Eins og sjórinn var þessa nótt, þá er erfitt að gera sér í hugarlund að nokkur hafi komist lífs af. Sjórokið varð svo mikið og það fraus jafnharðan og það kom yfir skipið. Maður þakkaði sínum sæla að vera þarna á þetta traustu skipi, eins og Óðinn hafði reynst.“

Óðinn var smíðaður árið 1959 og reyndist sérlega vel sem ...
Óðinn var smíðaður árið 1959 og reyndist sérlega vel sem björgunarskip. Skiðið bjargaði áhöfnum strandaðra eða sökkvandi skipa samtals fimm sinnum.
Fyrstu spor Sigurðar voru tekin niður í Selsfjöruna frá Framnesvegi.
Fyrstu spor Sigurðar voru tekin niður í Selsfjöruna frá Framnesvegi.

Fengu orður frá bresku krúnunni

Fyrir björgun skipverjanna af Notts County var Sigurður sæmdur bresku OBE-orðunni, sem stendur fyrir Officer of the Most Excellent Order of the British Empire. Fyrsti stýrimaður Óðins, Sigurjón Hannesson og annar stýrimaður, Pálmi Hlöðversson, hlutu þá hvor um sig orðuna The Sea Gallantry Medal of Gold.

Hann segist síðan þá hafa farið til Bretlands og hitt nokkra þeirra skipverja sem áhöfn Óðins bjargaði þessa nótt. „Þeir hömpuðu mér eins og glóandi gulli. En ég hef einhvern veginn viljað hafa þetta fyrir mig og verð að segja eins og er, að þú ert eiginlega sá fyrsti sem ég ræði þetta við fyrir alvöru.“

Uppi á vegg hjá Sigurði hangir á vegg sérstakt plagg um veitingu orðunnar, undirritað af Elísabetu Bretadrottningu. „Þessu hefur verið lítið haldið á lofti, enda var ég í stríði við Bretana á þorskastríðsárunum,“ segir Sigurður kíminn í bragði.

Hægra megin við plaggið hangir annað til viðbótar, um orðuveitingu frá Ólafi Noregskonungi.

„Ég gerðist svo frægur að sigla Óðni með síldarflotanum,“ útskýrir Sigurður, „þegar hann var gerður upp til að vera þjónustuskip fyrir flotann, sem þá fór til veiða austur við Bjarnarey norður af Noregi. Þá hafði eitthvert norskt herskip fengið í skrúfuna. Þeir kölluðu í okkur og við gátum sent froskkafara niður til að hreinsa úr skrúfunni. Þessa orðu fékk ég í kjölfarið.“

Vinstra megin við plagg drottningarinnar er svo á veggnum skjal um veitingu fálkaorðunnar, en hana fékk Sigurður auk fleiri skipherra Landhelgisgæslunnar við lok Þorskastríðsins, árið 1976.

Ég sé að skjalið frá drottningunni er í miðið, kanntu ef til vill mest að meta það?

„Nei, nei, nei, það er nú ekki svo. Konan mín hefur raðað þessu svona,“ svarar hann og hlær um leið.

Gómaði togara á bíl Gæslunnar

Skipherra. Sigurður í stýrishúsi Óðins á sjöunda áratugnum.
Skipherra. Sigurður í stýrishúsi Óðins á sjöunda áratugnum.

„Foreldrar mínir keyptu sér íbúð vestur á Framnesvegi, rétt fyrir ofan Selsfjöruna. Fyrstu sporin sem maður fór út, fjögurra eða fimm ára, þau voru niður í Selsfjöru að skoða báta,“ segir Sigurður spurður hvort hann hafi alltaf stefnt að því að starfa á sjó. „Allt mitt líf hefur síðan þá snúist um báta.“

Sigurður var fastráðinn skipherra hjá Landhelgisgæslunni árið 1959 og hafði því gegnt þeim starfa í tæpan áratug þegar atburðir þessir gerðust.

„En ég var búinn að vera eins og hundur, hlaupandi á milli í afleysingum, ýmist á skipunum, í fluginu, nú eða á bílunum,“ segir hann og hlær á sama tíma og blaðamaður hváir. „Það er lygilegt að segja frá því að maður hafi gómað bát í landhelginni á bíl,“ bætir hann við og segir svo frá:

„Ég var kunnugur vestur á Reykjanesi og vissi að undir Reykjaneskinninni voru togbátarnir oft að toga mjög grunnt. Svo við fórum, ég og Guðmundur Kjærnested í félagi við tvo aðra, slóðann út á Reykjanes. Þá sáum við bátana bara einhver hundruð metra frá klettunum, og þegar þeir sáu bílinn er ljóst að menn um borð fóru að hugleiða sinn gang. Við heyrðum hrópin: „Hífa, hífa!“ þegar við beygðum niður klappirnar. En þeir voru upplýstir í myrkrinu þannig að við gátum séð nafnið á stýrishúsinu.

Síðar kom í ljós að formaðurinn um borð í einum bátnum var fyrrverandi skólabróðir minn úr Stýrimannaskólanum. En það er ekki vert að minnast á nein nöfn,“ segir Sigurður og hlær aftur við.

Ferli hans sem skipherra lauk árið 1989. „Ég var bara búinn. Það gekk það mikið á,“ segir hann en bætir við að systursonur hans og nafni, Sigurður Steinar Ketilsson, sé í dag skipherra á varðskipinu Þór. „Hann tók við mínu kefli hjá Gæslunni.“

Ýtar­lega er fjallað um þessa at­b­urði í 200 míl­um - 48 síðna sér­blaði, sem fylgdi Morg­un­blaðinu í gær. Fjöl­marg­ar og ólík­ar sög­ur urðu til þessa ör­laga­ríku daga, hvort sem um ræðir skip­herra um borð í varðskip­inu Óðni, 19 ára vél­stjóra í sigl­ingu upp á líf og dauða, eða ung­an Breta sem á ótrú­leg­an hátt kemst lífs af eft­ir að tog­ari hans sekk­ur í hríðarbyl.

200 mílur - 48 síðna sérblað, fylgdi Morgunblaðinu í gær, ...
200 mílur - 48 síðna sérblað, fylgdi Morgunblaðinu í gær, föstudag.
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 17.1.19 287,17 kr/kg
Þorskur, slægður 17.1.19 332,13 kr/kg
Ýsa, óslægð 17.1.19 271,19 kr/kg
Ýsa, slægð 17.1.19 236,90 kr/kg
Ufsi, óslægður 17.1.19 100,26 kr/kg
Ufsi, slægður 17.1.19 134,00 kr/kg
Djúpkarfi 16.1.19 253,00 kr/kg
Gullkarfi 17.1.19 306,60 kr/kg
Litli karfi 24.10.18 17,00 kr/kg
Blálanga, óslægð 17.1.19 190,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

17.1.19 Einar Guðnason ÍS-303 Lína
Þorskur 3.891 kg
Ýsa 2.639 kg
Steinbítur 251 kg
Langa 13 kg
Karfi / Gullkarfi 10 kg
Samtals 6.804 kg
17.1.19 Egill ÍS-077 Rækjuvarpa
Rækja (úthafsrækja) 3.714 kg
Samtals 3.714 kg
17.1.19 Sæli BA-333 Lína
Steinbítur 1.198 kg
Þorskur 125 kg
Ýsa 81 kg
Skarkoli 9 kg
Samtals 1.413 kg
17.1.19 Sævík GK-757 Lína
Þorskur 2.621 kg
Ýsa 1.310 kg
Samtals 3.931 kg

Skoða allar landanir »