Stjórnvöld í Japan niðurgreiða hvalveiðar eigin útgerða svo mikið að litlu máli skiptir hvað útgerðirnar fá fyrir afurðirnar á markaði. Það er aðalástæða þess að Hvalur hf. mun ekki veiða og verka hval í sumar. Er þetta annað árið í röð sem hvalveiðar falla niður.
Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., segir að auk lágs verðs fyrir afurðirnar séu áfram endalausar kröfur um prufur og efnagreiningar á afurðum héðan, kröfur sem ekki séu gerðar til afurða frá útgerðum Japana sjálfra.
Hann bætir því við að þótt markaðurinn í Japan væri í lagi hefði verið nánast vonlaust að vinna við hvalskurð vegna kórónuveirufaraldursins. Menn vinni þar í svo mikilli nálægð hver við annan.
Kristján er þó ekki af baki dottinn með að hefja hvalveiðar að nýju. Hann segir að rannsóknir sem unnið hafi verið að á hvalaafurðum séu í fullum gangi. Þær felist í að athuga möguleika á því að nýta langreyðarkjöt í járnríkt fæðubótarefni fyrir fólk sem þjáist af blóðleysi og framleiða gelatín úr beinum og hvalspiki til lækninga og matvælavinnslu.