Hrina eldgosa einn möguleikanna

Eldgos í Geldingadölum | 15. maí 2022

Hrina eldgosa einn möguleikanna

Jarðskjálftavirkni hefur í dag haldið áfram á Reykjanesskaga, en skjálftahrina hófst við Eldvörp um kl. 11.30 í dag og kl. 14.17 varð skjálfti af stærð 4,2 sem fannst á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu.

Hrina eldgosa einn möguleikanna

Eldgos í Geldingadölum | 15. maí 2022

Lifandi jörð, við Gunnuhver á Reykjanesskaga.
Lifandi jörð, við Gunnuhver á Reykjanesskaga. mbl.is/Sigurður Bogi

Jarðskjálftavirkni hefur í dag haldið áfram á Reykjanesskaga, en skjálftahrina hófst við Eldvörp um kl. 11.30 í dag og kl. 14.17 varð skjálfti af stærð 4,2 sem fannst á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu.

Jarðskjálftavirkni hefur í dag haldið áfram á Reykjanesskaga, en skjálftahrina hófst við Eldvörp um kl. 11.30 í dag og kl. 14.17 varð skjálfti af stærð 4,2 sem fannst á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðinu.

Klukkan 17.38 mældist síðan skjálfti 4,3 að stærð og fáeinum sekúndum áður skjálfti um 4 að stærð. 

Halldór Geirsson jarðeðlisfræðingur segir að land hafi risið í byrjun maí við Svartsengi, en skjálftavirkni umhverfis svæðið hefur verið mikil undanfarið. 

Landris frá byrjun maí

„Það ber helst til tíðinda að það er landris þarna við Svartsengi eða Þorbjörn eins og það hefur verið kennt við. Það hefur verið síðan í byrjun maí og er núna búið að rísa um 2 sentímetra mest hingað til. Þetta er á hægri uppleið en veldur heilmikilli skjálftavirkni þarna í kring. Það er hugsanlega afleiðing af þessu öllu saman,“ segir Halldór í samtali við mbl.is.

Hann segir ólíklegt að skjálfti sem varð í gær við Þrengsli tengist virkninni við Svartsengi. 

„Svo varð í gær skjálfti miklu austar í Þrengslum. Þar eru mælingar á jarðskjálftahreyfingum ekki jafn næmar – það eru fleiri mælar á Reykjanesskaga sem hafa verið settir upp vegna umbrota þar síðustu ár. Það er ekki sjáanlegt að það séu nokkrar hreyfingar að fylgja því, líklega að þetta hafi verið spennulosun í flekaskilunum og þannig séð ekki neinar vísbendingar um annað þar.“

Möguleiki á goshrinu 

Halldór segir ýmsar mögulegar atburðarrásir koma til greina varðandi framhaldið: 

„Það eru ýmsar mögulegar atburðarásir. Það hafa margir talað um að við séum mögulega að fara inn í goshrinu sem getur varað þess vegna næstu 200, 300 árin af og til. Það eru allar sviðsmyndir undir,“ segir Halldór. 

Gosið við Fagradalsfjall hafi þá verið upphafið að þessari goshrinu?

„Við vitum ekki fyrr en upp er staðið hvort að það hafi verið upphafið að einhverju eða ekki. En það er ýmislegt sem bendir til þess. Það hafa verið ákveðin umbrot í fleiri eldstöðvakerfum en bara Fagradalsfjalli; landrisið sem er núna við Svartsengi eða Þorbjörn er fjórða slíka landrisið síðan 2020. Svo var líka landris í Krýsuvík 2020 og svo hafa líka verið einhverjar óljósar hreyfingar lengra út á Reykjanesinu. Það eru mörg kerfi á Reykjanesskaganum sem eru að upplifa einhverjar færslur sem gætu tengst kvikuhreyfingum. En það er ómögulegt að segja hvenær og hvar eitthvað gæti komið upp,“ segir Halldór.

mbl.is