„Ég hef verið uppteknust af þarmaflórunni undanfarið“

Heilsurækt | 7. október 2022

„Ég hef verið uppteknust af þarmaflórunni undanfarið“

Guðbjörg Gissurardóttir, ritstjóri Í boði náttúrunnar, hefur brennandi áhuga á heilsunni. Hún stendur fyrir ráðstefnunni Lifum betur sem fram fer í Hörpu um helgina. Guðbjörg hefur sjálf þurft að kafa djúpt þegar kemur að eigin heilsu og þurft að taka hana föstum tökum. Hún segir að vatnsföstur geti gert kraftaverk og segir að töfrarnir gerist þegar fólk fer að sýna þarmaflórunni meiri áhuga.

„Ég hef verið uppteknust af þarmaflórunni undanfarið“

Heilsurækt | 7. október 2022

Guðbjörg Gissurardóttir, ritstjóri Í boði náttúrunnar, hefur brennandi áhuga á heilsunni. Hún stendur fyrir ráðstefnunni Lifum betur sem fram fer í Hörpu um helgina. Guðbjörg hefur sjálf þurft að kafa djúpt þegar kemur að eigin heilsu og þurft að taka hana föstum tökum. Hún segir að vatnsföstur geti gert kraftaverk og segir að töfrarnir gerist þegar fólk fer að sýna þarmaflórunni meiri áhuga.

Guðbjörg Gissurardóttir, ritstjóri Í boði náttúrunnar, hefur brennandi áhuga á heilsunni. Hún stendur fyrir ráðstefnunni Lifum betur sem fram fer í Hörpu um helgina. Guðbjörg hefur sjálf þurft að kafa djúpt þegar kemur að eigin heilsu og þurft að taka hana föstum tökum. Hún segir að vatnsföstur geti gert kraftaverk og segir að töfrarnir gerist þegar fólk fer að sýna þarmaflórunni meiri áhuga.

„Ég hef verið uppteknust af þarmaflórunni undanfarið og öllum þeim milljörðum örvera sem búa þar. Hljómar kannski ekki sexí en þetta er jú grunnurinn að okkar andlegu og líkamlegu heilsu. Svo var það líka að ég keypti mér bók nýlega sem heitir Fiber Fueled eftir Will Bulsiewicz og kveikti hún í mér. Í bókinni útskýrir höfundurinn svo vel hvað er mikilvægast fyrir heilbrigða flóru. Það snýst fyrst og fremst um byggja upp fjölbreytta örveruflóru. Til þess þurfum við að borða nóg af fjölbreyttum plöntutrefjum og trefjarnar fáum við meðal annars úr grænmeti, salati, baunum, fræjum, ávöxtum, korni og svo eru gerjaðar vörur eins og sýrt kál, kefír og kambucha mjög gott fyrir flóruna. Því ætti markmiðið að vera að borða á hverjum degi sem fjölbreyttast úrval plantna um leið og maður minnkar til dæmis kjöt sem inniheldur engar trefjar og unnar matvörur sem er fullar af aukefnum sem hafa slæm áhrif á þarmaflóruna,“ segir Guðbjörg. 

Þegar Guðbjörg er spurð að því hvers vegna hún hafi fyrst byrjað að huga að þarmaflórunni segir hún að það eigi sér langa sögu. 

„Ég var rúmlega tvítug þegar ég fór að fá reglulega ristilkrampa eftir slæma matareitrun. Ég hafði verið mikið pensillínbarn vegna eyrnabólgu og blöðrubólgu. Ég tel að þessi matareitrun hafi komið af stað miklu ójafnvægi í þörmunum. Fyrst vissi ég ekkert hvernig ég ætti að taka á þessu en á endanum náði ég að lækna mig af þessum ristilkrömpum með mataræðinu þar sem trefjar og góðgerlar léku stórt hlutverk. Þarna byrjaði í raun minn áhugi á heilsu og náttúrulegum leiðum til að lækna og fyrirbyggja heilsuvanda.

Þannig að ég hef lengi verið að pæla í þörmunum. Það var viðtal við Will, höfund bókarinnar sem ég talaði hér um áðan, sem kveikti aftur á áhuga mínum að bæta flóruna mína. Í þessu viðtali segir hann frá rannsókn þar sem þarmaflóra fólks var mæld fyrir og eftir að hafa fengið kórónuveiruna. Niðurstaðan var sú að 80% þeirra sem voru með fjölbreytta flóru fengu mild einkenni af kórónuveirunni. Þetta var í fyrsta sinn sem ég heyrði mögulega skýringu á því af hverju fólk varð svona misveikt. Þetta er auðvitað bara ein rannsókn en mér finnst þetta trúlegt þar sem talið er að 70% af okkar ónæmiskerfi sé nátengt þörmunum,“ segir Guðbjörg. 

Hvað hefur þú gert til þess að hugsa sem best um heilsuna sjálf?

„Ég hef að leiðarljósi að allt er best í hófi og hver og einn finni hvað virkar fyrir hann. Ég er ekki fyrir matarkúra og vil frekar hugsa um að borða hollan og góðan mat oftar en hitt. Að gera lítið reglulega frekar en mikið sjaldan held ég að virki betur til langs tíma. Ég hef til dæmis haldið mér í líkamlegu formi með stuttum en góðum sundspretti á morgnana. Ég hugleiði reglulega sem heldur andlegu heilsunni í formi. Ég tek líka bætiefni eins og D og B- vítamín, góðgerla og reyni að muna eftir lýsinu og svo ýmislegt annað sem ég tek í skorpum. Heilsan tengist einnig umhverfinu mínu og vel ég umhverfisvænar vörur fyrir mig og heimilið sem lágmarka mengandi efni en það getur verið meiri mengun inni hjá fólki en úti í stórborg. Aðalmálið er að finna taktinn og lífsstílinn sem hefur fyrirbyggjandi áhrif og heldur manni hraustum og hressum sem lengst. Ég vil gera það sem ég get núna á meðan ég er hraust í stað þess að vona bara það besta.“

Talið berst að föstum. Guðbjörg segir að þær hafi gert mikið fyrir hennar eigin heilsu. 

„Ég hef farið í nokkrar, mislangar og ólíkar. Nú síðast fór ég í þriggja daga vatnsföstu og í framhaldinu eða í rúmt ár hef ég tekið mánudaga sem „föstudaga“. Þegar við föstum þá gefum við líkamanum tækifæri á að fara í sjálfvirka endurnýjun. Hann losar sig við elstu og lélegustu frumurnar. Þetta ferli er mikilvægt til að fyrirbyggja alls konar vandræði. Fasta er frábært tól til halda okkur heilbrigðum lengur og getur hjálpar okkur að léttast eða halda okkur í kjörþyngd,“ segir hún. 

Hvers vegna heldur þú að það sé?

„Líkaminn þarf orku til að knýja sig áfram. Sykurinn er okkar aðalorkugjafi. Eftir einn dag lækkar blóðsykurinn. Á degi tvö byrjar líkaminn að undirbúa orkuskipti, að er að segja skipta yfir í það að nota fituforðann sem geymdur er í líkamanum. Þetta ástand kallast ketósa og þaðan kemur heiti ketó-mataræðisins. Þetta útskýrir á einföldu máli hvernig líkaminn losnar við fitu án þess að þurfa að fara í ræktina.“

Var ekkert erfitt að taka vatnsföstu?

„Nei, alls ekki en það hjálpaði að ég var ein uppi í bústað svo ég þurfti ekki að horfa á aðra borða. Lykilatriðið er að undurbúa sig vel vikuna áður þannig að líkaminn sé helst kominn í það að brenna fitu. Ég sleppti til dæmis sykri, forðaðist glúten sem þýddi að allt brauðmeti fór út. Þegar líkaminn er farinn að brenna fitu þá minnkar svengdartilfinningin. En það getur oft verið erfiðara að glíma við hugann sem er skíthræddur við svengdartilfinninguna og fer að koma með alls konar ástæður til að hætta eða svindla. Ég hefði alveg getað verið lengur á bara vatni en það sem ég saknaði var stússið í kringum matinn og að setjast niður og borða. Ég þurfti sem sagt að fylla upp í talsverðan tíma sem skapaðist við það að sleppa því að borða,“ segir Guðbjörg. 

Þegar Guðbjörg er spurð að því hvort hún hafi verið í fullri virkni á meðan á föstunni stóð segir hún svo vera. 

„Já til að byrja með var þetta ekkert mál. Ég var bara að vinna en síðasta daginn fann ég fyrir orkuleysi og nennti engu. Vildi helst bara liggja og horfa á eitthvað á Netflix! Þá hlustar maður á líkamann og leyfir honum að hvílast enda mikil vinna í gangi sem maður veit ekki hvernig líkami okkar bregst við. Annars mun ég fara nánar út í föstu á fyrirlestri sem ég ætla að halda á Lifum betur, umhverfis- og heilsuveislunni, sem verður í Hörpu um helgina,“ segir hún. 

Guðbjörg segir að markmiðið með ráðstefnunni sé að gefa fólki innblástur og hugmyndir um það sem það getur nýtt sér strax og tekið með sér inn í lífið. 

„Ég hef handvalið fyrirlesara sem fjalla um fjölbreytt mál sem varða heilsuna okkar og umhverfi. Ég vil að fólk hugsi hvar það langar að vera eftir 30 ár og hvað það þarf þá að byrja að gera núna. Það verður meðal annars fjallað um þarmaflóruna, álag og áhrif þess á sambönd, fyrirbyggjandi aðgerðir fyrir heilsuna, hamingjuna, að byggja umhverfisvæn hús, plastlausan lífstíl, dáleiðslu, öndun, biohacking, hlaup, græn skref fyrir heimilið og fleira. Fyrirlestrarnir, sem eru 20 mínútur hver, eru samtals 20 og eru bæði á laugardag og sunnudag.  En þeir sem kaupa sér 3 daga veislupassa geta einnig horft á alla fyrirlestranna í beinni útsendingu auk þess að fá aðgang að endurspilun í 4 vikur,“ segir hún. 

Hvers vegna heldur þú þessa ráðstefnu?

„Þetta er gamall draumur. Mig hefur lengið langað að skapa viðburð eins og ég sótti oft þegar ég bjó út í New York. Þar sem ég eyddi heilu helgunum í að hlusta á áhugaverða fyrirlestra á milli þess sem ég gat skoðað sýningu þar sem boðið var upp á heilsutengdar vörur og þjónustu. Fyrir tveimur árum varð útgáfan mín, Í boði náttúrunnar, 10 ára og ákvað ég þá að slá til. En þá skall kórónuveiran á og ég hef frestað þess endalaust. Ég ákvað þó að halda rafræna fyrirlestraveislu 2020 sem tókst frábærlega og voru þeir tæplega 1000 áhorfendur sem horfðu á, ótrúlega ánægðir. Nú verðum við líka með 50 fyrirtæki sem sýna vörur og þjónustu sem tengist heilsu og umhverfismálum. Þannig að þeir sem koma bara á sýninguna fara pottþétt aðeins grænni og heilbrigðari út.“ 

Hvað vonast þú til að gerist í kjölfar ráðstefnunnar?

„Ég vona að fólk fái hugmyndir og innblástur til að lifa betur og lifa í góðri sátt við náttúruna. Ég veit fyrir víst að ég mun læra helling af þessu alveg eins og ég gerði 2020 þegar við héldum fyrirlestraveisluna á netinu. Það var í kjölfar þess að ég fór að fasta, tók svefninn fastari tökum og fór að anda minna,“ segir hún og hlær.

„Það sem ég hef gert öll þessi ár í tímaritinu mínu og vil gera á þessum viðburði er að þætta heilsuna og umhverfismálin saman enda er þarna náin tengsl sem við getum ekki horft fram hjá. Við, sem einstaklingar, getum haft mikil góð áhrif á umhverfi okkar í krafti fjöldans og hvert einasta litla skref sem við tökum í átt að grænni heimi skiptir raunverulegu máli.“

mbl.is