Versace-kjóll Jennifer Lopes og annað merkjavörugóss!

Fatastíllinn | 11. apríl 2023

Versace-kjóll Jennifer Lopes og annað merkjavörugóss!

Endursala á merkjavöru hefur sjaldan verið meiri en einmitt nú. Margar ástæður liggja þar að baki þótt aukin umhverfisvitund neytenda sé líklega stærsti þátturinn. Í dag er hægt að gera góð kaup á erlendum merkjavörusíðum og fólk getur komið sínum eigin merkjaflíkum í verð með lítilli fyrirhöfn.

Versace-kjóll Jennifer Lopes og annað merkjavörugóss!

Fatastíllinn | 11. apríl 2023

Jennifer Coolidge var stórkostleg í The White Lotus. Jennifer Lopez …
Jennifer Coolidge var stórkostleg í The White Lotus. Jennifer Lopez vakti heimsathygli þegar hún klæddist græna flegna kjólnum frá Versace. Ljósmynd/Samsett

Endursala á merkjavöru hefur sjaldan verið meiri en einmitt nú. Margar ástæður liggja þar að baki þótt aukin umhverfisvitund neytenda sé líklega stærsti þátturinn. Í dag er hægt að gera góð kaup á erlendum merkjavörusíðum og fólk getur komið sínum eigin merkjaflíkum í verð með lítilli fyrirhöfn.

Endursala á merkjavöru hefur sjaldan verið meiri en einmitt nú. Margar ástæður liggja þar að baki þótt aukin umhverfisvitund neytenda sé líklega stærsti þátturinn. Í dag er hægt að gera góð kaup á erlendum merkjavörusíðum og fólk getur komið sínum eigin merkjaflíkum í verð með lítilli fyrirhöfn.

Í dag eru síður sem selja notaða merkjavöru orðnar svo góðar að oft og tíðum eru þær eins og stafræn tískutímarit. Fólk sem hefur áhuga á efnum, klæðnaði og tískuiðnaði getur misst marga klukkutíma úr lífi sínu á meðan það skoðar fallega hluti sem eru í leit að nýjum ævintýrum.

Það að skoða góss annars fólks er svolítið eins og komast í minningakassa þar sem löngu horfinn tíðarandinn birtist ljóslifandi. Það er meira að segja líklegt að þú komir auga á eitthvað sem þú hélst að þig myndi aldrei langa í. Skyndilega ertu farin að sjá þig fyrir þér í gulri hnésíðri pilsdragt með Hermés-slæðu um hálsinn og Paddington-hatt. Þú passar þig samt á því að ræða þetta ekki upphátt við nokkurn mann því fólk gæti misskilið þig og haldið að þú sért að ruglast á vikum. 

Það er heldur ekki ólíklegt að þú hnjótir um góss sem þú sást í tískublöðum æsku þinnar og hefur nú kannski tækifæri til að kaupa. Munið eftir öllum einstöku kjólunum sem tískuhúsið Versace gerði í kringum árið 2000? Kannski ekki en þið munið allavega eftir söng-og leikkonunni, Jennifer Lopez, þegar hún kom fram á Grammy-verðlaununum árið 2000 í kjól frá Versace sem var opinn niður að nafla. Hvað myndir þú gera ef þú rækist á þennan kjól á einhverjum af þessum vefsíðum sem selja slíkt góss? Myndir þú stökkva á vagninn? Um daginn rakst ég á samfellu frá 2000-tímabili Versace og var næstum því búin að stökkva á vagninn þegar ég áttaði mig á því að ég yrði aldrei eins og Lopez. Meira svona eins og Jennifer Coolidge í The White Lotus sem sýndir eru í Sjónvarpi Símans þessa dagana. Góð regla er að hugsa sig um en það hefur þó ekki alltaf tekist. Stundum fer maður yfir mörkin.

Jennifer Lopez í Versace árið 2000.
Jennifer Lopez í Versace árið 2000. AFP/MIKE BLAKE
Hér er Lopez með Puff Daddy.
Hér er Lopez með Puff Daddy. AFP/MIKE BLAKE

Þegar vinkonan kaupir eins!

Fyrir mörgum árum lánaði vinkona mín mér kjól fyrir einstakt tilefni. Kjóllinn var svo fallegur og eigulegur að hún þurfti að hringja í mig sérstaklega til að spyrja mig hvort ég væri ekki örugglega bráðum að fara að skila kjólnum. Kjóllinn var hannaður af Karl Lagerfeld árið 2007 fyrir franska tískuhúsið Chanel. Þegar þú ert með slíkan grip í fataskápnum þá kvíðir þú fyrir kveðjustundinni. Ég skilaði kjólnum með trega. Eftir að hafa uppgötvað merkjavörursíðurnar fletti ég reglulega í gegnum kjóla frá þessu tímabili og var einhvern veginn alltaf viss um að sá dagur rynni upp að ég myndi rekast á þennan kjól. Ég var hinsvegar ekki búin að reikna með því að það gæti gerst og hvernig ég myndi bregðast við. Svo gerðist það einn súran lægðarmikinn vetrardag að kjóllinn var óvart ljóslifandi fyrir framan mig á einni af vefsíðunum sem ég laumast stundum í. Án þess að hugsa sótti ég kortið mitt og ýtti á KAUPA! Kjóllinn mætti heim að dyrum tveimur dögum síðar. Þá rann upp fyrir mér ljós. Kannski langaði vinkonu mína ekki að ég ætti eins kjól og hún. Ég hringdi því í hana með skottið á milli lappanna og játaði glæpinn. Fannst það einhvern veginn heiðarlegra en að mæta bara í honum næstu veislu eins og ekkert hefði í skorist. Hún dæsti í símann og sagði: „Til hamingju! Þetta var það eina rétta í stöðunni. Minn kjóll býr í Lundúnum svo þú þarft ekki að hafa neinar áhyggjur,“ sagði hún hlýlega. Þess má geta að kjólar eftir fræga hönnuði geta kostað svipaða peninga og kjólar í næstu verslunarmiðstöð en verðið er misjafnt eftir merkjum.

Tískuhúsið Louis Vuitton nýtur vinsælda.
Tískuhúsið Louis Vuitton nýtur vinsælda. AFP/Eduardo Leal
Unsplash/Horology

Hér koma nokkrar góðar síður sem gaman er að skoða:

The Real Real er einn besti skemmtistaður heims fyrir utan þegar Studio 54 var og hét. Um er að ræða langstærstu vefverslunina með notuð föt sem þarfnast nýrra eigenda. Þar er að finna flíkur, skó, töskur, skartgripi og húsbúnað eftir helstu tískuhönnuði heimsins. Vörurnar eru verðlagðar eftir gæðum og á verðið til að lækka ef eftirspurn er dræm. Það góða við þessa síðu er að það tekur oft ekki nema tvo daga að fá varninginn upp að dyrum. Það er líklega vegna þess að The Real Real verslar ekki við Póstinn. Síðan er skipulega sett upp. Hægt er að leita eftir hönnuðum, eftir tegundum af fötum og svo er hægt að leita eftir fatastærð. Það er þó mikilvægt að þekkja sínar eigin stærðir og lesa vel leiðbeiningar. Það skiptir til dæmis máli hvort föt séu klæðskerasniðin úr stífum efnum eða úr teygjuefni. Það er enginn sniðugur í að gera góð kaup ef allt sem er keypt kemur í rangri stærð.

Vestiaire Collective er skemmtileg síða sem stofnuð var af Fanny Moizant árið 2009. Það er mjög gott úrval af fallegum fötum á síðunni en á hverjum degi koma 25.000 nýjar vörur inn á síðuna. Þetta eru vörur frá hátískuhúsum eins og Prada, Gucci, Chanel og Dior svo einhver séu nefnd. Eina vandamálið við þessa síðu er að hún sendir ekki til Íslands. Ef þú ert erlendis í fríi þá má nota síðuna en svo þekkjum við flest einhvern sem býr erlendis og er til í að þjónusta okkur.

Svo er það Cudoni, sem frumkvöðullinn James Harford-Tyrer stofnaði. Þar er að finna merkjavöru sem þarfnast ástar en líka notaðan fatnað frá vinsælum tískumerkjum. Ef þú misstir til dæmis af uppáhalds-Ganni-kjólnum þínum í Geysi á sínum tíma þá gætir þú hugsanlega fundið hann á síðunni fyrir lítla peninga.

Reluxe var stofnuð í fyrra af Clare Richardson, tískuritstjóra WSJ og breska og ítalska Vogue. Hún er líka stílisti og alger tískuleiðtogi. Hennar markmið með síðunni er að gera kaup og sölu á notuðum fatnaði eins auðvelda og hægt er. Óhætt er að treysta því að fötin á Reluxe koma úr fataskápum best klæddu kvenna heims. Á síðunni er að finna fatnað eftir Vivienne Westwood, Jil Sander og Celine svo eitthvað sé nefnt. Ef þú vilt uppfæra stílinn þinn þá getur líka verið gagnlegt að skoða Instagram-síðu hennar til að sjá hvernig hægt er að vera bilað-smart og lekker.

Svo er það Lampoo, ítölsk vefsíða sem sérhæfir sig í sölu á notuðum merkjavörufötum. Nýlega opnaði vefverslunin verslun á Kings Roads í Lundúnum og síðar á þessu ári verður opnuð verslun í París. Það er tilvalið að kaupa merkjavöru frá Valentino, Kenzo og Alexander Wang á síðunni svo einhver merki séu nefnd.

Unsplash/Laura Chouette

Þessi listi er ekki tæmandi en þetta eru þær síður sem undirrituð skoðar hvað oftast. Af nægu er að taka enda er þetta hringrásarhagkerfi stundum eins og æsispennandi tölvuleikur. Eini munurinn er sá að þú þarft ekki að biðja vin þinn um líf til að spila lengur. Þegar peningurinn klárast á kortinu þínu þá ferðu bara inn í fataskáp og athugar hvort það sé ekki örugglega einhver flík þar sem þarfnast ástar einhvers annars en þín. Ef þú nennir ekki þessu útlanda-stússi og vilt skilja eftir peninga í plássinu þá er íslenska endursöluverslunin Attikk.is skemmtileg.

Unsplash/John Tuesday
mbl.is