„Er bjartsýnn þar til annað kemur í ljós“

Kjaraviðræður | 11. mars 2024

„Er bjartsýnn þar til annað kemur í ljós“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að það ætti að vera hægt að landa samningi við Samtök atvinnulífsins á tiltölulega skömmum tíma en samninganefndir VR og LÍV og SA setjast að samningaborðinu í Karphúsinu klukkan 10 í dag.

„Er bjartsýnn þar til annað kemur í ljós“

Kjaraviðræður | 11. mars 2024

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í …
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í Karphúsinu í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að það ætti að vera hægt að landa samningi við Samtök atvinnulífsins á tiltölulega skömmum tíma en samninganefndir VR og LÍV og SA setjast að samningaborðinu í Karphúsinu klukkan 10 í dag.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að það ætti að vera hægt að landa samningi við Samtök atvinnulífsins á tiltölulega skömmum tíma en samninganefndir VR og LÍV og SA setjast að samningaborðinu í Karphúsinu klukkan 10 í dag.

„Ég get engan veginn metið hvernig mótaðilinn okkar verður stemmdur inn í daginn en ég geng bjartsýnn til fundarins þar til annað kemur í ljós,“ segir Ragnar Þór í samtali við mbl.is spurður hvort hugsanlega takist að ná samningum í dag.

Hann segir það algjörlega undir Samtökum atvinnulífsins komið hvort hægt verði að ganga frá samningi fljótt og vel en á föstudaginn skrifaði breiðfylking stéttafélaga undir nýjan fjögurra ára kjarasamning og á laugardaginn gerðu fagfélögin, sem í eru Rafiðnaðarsamband Íslands, Matvís, VM og Grafía, slíkt hið sama.

Ágætur tónn í framkvæmdastjóra SA

„Mér fannst tóninn í Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra SA, ágætur í fréttunum og ef sá jákvæði tónn verður til staðar varðandi það að gera alvöru atlögu að þessu þá vekur það upp smá bjartsýni,“ segir Ragnar.

Ragnar segir að það ætti ekki að taka langan tíma að ná samningum en það fari svolítið eftir því hvernig gangi að eiga við nokkur mál.

Fulltrúar VR og LÍV ræða málin við Ástráð Haraldsson ríkissáttasemjara …
Fulltrúar VR og LÍV ræða málin við Ástráð Haraldsson ríkissáttasemjara í Karphúsinu í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

„Það eru þó nokkur sérmál sem við þurfum að komast í gegnum og miðað við hvað þetta hefur var þungt hjá breiðfylkingunni og fagfélögunum þá er maður ekkert allt of bjartsýnn. Það hefur tekið daga og vikur að klára einföldustu mál en við skulum vona að SA mæti til leiks til að reyna að klára þetta eins og við. Þá ætti þetta að geta klárast á tiltölulega skömmum tíma.

Atkvæðagreiðsla um verkföll hófst í morgun

Eitt af þessum sérmálum sem Ragnar talar um lítur að félagsfólki VR sem starfar í farþega-og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli en klukkan 9 í morgun hófst atkvæðagreiðsla hjá því um verkföll. Þeirri atkvæðagreiðslu lýkur á fimmtudaginn.

„Ég trúi ekki öðru en að Icelandair sé tilbúið til þess að koma til móts við þessa hópa. Þetta er eitt af stóru málunum sem við þurfum að klára,“ segir Ragnar.

Spurður hvort atkvæðagreiðslan sé eitthvað að hafa áhrif á viðræðurnar við SA segir Ragnar:

„Þetta er eitt af þeim málum sem þarf að klára til þess að hægt verði að skrifa undir kjarasamninga. Þetta er sérkjarasamningur sem hangir saman við aðalkjarasamning. Það er illa hægt að klára annað hvort,“ segir Ragnar og bætir því við að kröfurnar hjá starfsfólkinu á Keflavíkurflugvelli séu sanngjarnar.

mbl.is