Sagðist hafa „vitað“ að ráðist yrði á Lundúnir

Ken Livingstone á fundinum í dag.
Ken Livingstone á fundinum í dag. AP

Ken Livingstone, borgarstjóri Lundúnaborgar, sagðist í dag hafa „vitað“ að ráðist yrði á borgina fyrr eða síðar og að áætlanir sem gerðar höfðu verið til þess að bregðast við slíkum árásum hefðu komið sér vel í gær.

„Allt sem við höfum undirbúið vegna þess dags sem við vissum að myndi renna upp gekk eins og í sögu,“ sagði Livingstone á blaðamannafundi sem hann hélt ásamt Ian Blair, lögreglustjóra Lundúna.

Livingstone sagði að bók, þar sem hægt yrði að rita samúðarkveðjur vegna hryðjuverkanana, yrði látin liggja frammi í ráðhúsi Lundúna á mánudag. Hann hvatti Breta til þess að snúa sér að daglegum störfum að nýju í næstu viku þrátt fyrir árásirnar í gær, en að minnsta kosti 50 manns fórust í þeim. „Ég ætla sjálfur að nota neðanjarðarlestarkerfið á mánudag og ég ráðlegg öllum Lundúnabúum að gera slíkt hið sama,“ sagði borgarstjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert