Þrír dæmdir fyrir tilraunir til hryðjuverka í Svíþjóð

Sænskir dómstólar dæmdu í dag þrjá menn fyrir skipulagningu hryðjuverka í Svíþjóð, þ.á m. misheppnaða sprengjuárás á kjörstað Íraka. Mennirnir eru sagðir hafa verið á móti stríðinu í Írak og heillaðir af hugmyndum um mujahedeen, eða „heilaga stríðsmenn”.

Einn mannanna, Nima Nikain Ganjin, var dæmdur til þriggja og hálfs árs fangelsisvistar fyrir að hafa varpað bensínsprengjum að kjörstað í Stokkhólmi þar sem landflótta Írakar kusu í desember síðastliðnum. Ekki kviknaði í húsinu þar sem kosningin fór fram. Þá var félagi hans, Andreas Fahlen, dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar fyrir að hafa aðstoðað við skipulagningu árásarinnar.

Sá þriðji, Albert Ramic, var dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir að hafa aðstoðað mennina tvo við að skipuleggja árás á kirkju í Uppsölum. Kirkjan þjónar um 3.000 bókstafstrúarmönnum og hefur hún verið sögð vinveitt Ísraelum.

Þetta er í annað sinn sem menn eru dæmdir á grundvelli hryðjuverkalaga sem sett voru í Svíþjóð árið 2003. Tveir Írakar voru í fyrra dæmdir fyrir að senda Abu Musab al-Zarqawi og öðrum hryðjuverkamönnum tæplega 150.000 Bandaríkjadali.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert