Obama heillar ungu kynslóðina

Barack Obama.
Barack Obama. AP

Forsetaframbjóðandi demókrata, Barack Obama, er að heilla ungu kynslóðina í Pennsylvaníu upp úr skónum. Á fjöldafundi þar skráðu 2.000 ungmenni sig sem meðlimir demókrataflokksins en óháðir mega ekki kjósa í forkosningu í ríkinu. Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

 Fylgi Obama í Pennsylvaníu hefur farið aukandi en búist er við því að mótframbjóðandi Obama, Hillary Clinton, muni sigra í forkosningunum sem fram fara 22. apríl nk. sökum mikils stuðnings verkalýðsins þar.   

Þeir sem skráðu sig eftir fjöldafundinn voru á aldrinum 18-29 ára og hafa stuðningsmenn Obama verið iðnir við að breiða út boðskap hans og reyna að efla fylgi. Afstaða Obama hvað varðar stríðið í Írak og andúð hans á George W. Bush forseta Bandaríkjanna virðast falla vel í kramið hjá ungu fólki í Pennsylvaníu.

Dæmi voru um að fólk sem var skráð meðlimir í Repúblikanaflokkinn skiptu um og skráðu sig sem meðlimi í Demókrataflokknum til þess að geta kosið Obama nk. þriðjudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina