Alnæmi ógnar stjórnarfari í Afríku

Mótmæli gegn eyðni fyrir utan þinghúsið í Höfðaborg í Suður-Afríku.
Mótmæli gegn eyðni fyrir utan þinghúsið í Höfðaborg í Suður-Afríku. MIKE HUTCHINGS

Alnæmi, eða HIV-veiran, leggur svo marga stjórnmálamenn að velli í Afríku sunnan Sahara, að það ógnar getu stjórnvalda til þess að starfa almennilega. Þetta er niðurstaða Kondwani Chirambo, sem gert hefur rannsókn á andlátum stjórnmálamanna í Suður Afríku.

Hann hefur einnig rannsakað sex önnur lönd þar sem mikill fjöldi þingmanna hefur látist úr alnæmi.

„Ef tölfræðin er skoðuð sést að mjög margir þingmenn hafa dáið tiltölulega ungir. Þetta er ekki ósvipað því sem gerist hjá þessum þjóðum almennt,“ segir Chirambo, sem starfar við Lýðræðisstofnunina í Suður Afríku. Á síðustu átta árum hefur næstum því helmingur kosinna fulltrúa á sveitarstjórnarstigi í Suður Afríku látist fyrir fimmtugt. Þetta segir Chirambo að boði ekki gott fyrir landið, þar sem léleg frammistaða hins opinbera er mikið vandamál.

Í allri Suður-Afríku leiddi rannsóknin aðeins í ljós einn kjörinn fulltrúa sem ræddi opinskátt um að hann væri HIV-smitaður. Chirambo telur að stjórnmálamenn leiti sér ekki hjálpar út af sjúkdómnum vegna ótta við fordóma. „Það er ljóst að margir þeirra telja það pólitískt sjálfsvíg að gefa það upp að þeir séu HIV-jákvæðir.“

Í Suður-Afríku eru 5,4 milljónir manna með HIV-veiruna. Munurinn er þó mikill á milli landa. Í Senegal er eitt prósent fólks með HIV og þar höfðu aðeins þrjú þingsæti losnað vegna dauða þingmanna. Í Sambíu hins vegar, þar sem alnæmi er stærra vandamál, er andlát algengasta ástæðan fyrir því að þingsæti losna.

mbl.is