WikiLeaks tekur við framlögum

Í tilkynningu frá WikiLeaks segir að vefsíðan geti nú tekið …
Í tilkynningu frá WikiLeaks segir að vefsíðan geti nú tekið við fjárframlögum þrátt fyrir að Visa og MasterCard hafi hindrað fjárstreymi til síðunnar frá því í desember 2010. Reuters

Vefsíðan WikiLeaks tilkynnti í dag að síðan hefði fundið leið til þess að taka við frjálsum framlögum þrátt fyrir að greiðslugátt DataCell, sem notuð hefur verið til þess að safna slíkum framlögum fyrir síðuna, hafi verið lokuð frá því í desember árið 2010.

„Eftir næstum tveggja ára baráttu gegn bandarísku fjármálarisunum VISA og MasterCard, sem lokuðu á peningastreymi til síðunnar, tilkynnir WikiLeaks nú að síðan getur að nýju tekið við fjárframlögum.“

Vefsíðan ætlar sér að nota þjónustu Carte Bleue, fransks fyrirtækis sem rekur sambærilega þjónustu og Visa, til þess að komast hjá banninu og safna einni milljón evra. Fram kemur í tilkynningu að vefsíðuna sárvanti fé til að geta haldið starfsemi sinni áfram.

„VISA og MasterCard geta ekki bannað viðskipti sem fara fram í gegnum Carte Bleue-kerfið,“ sagði jafnframt í tilkynningu.

„WikiLeaks ráðleggur stuðningsmönnum sínum um víða veröld að nýta sér þennan kost umsvifalaust áður en VISA og MasterCard reyna að útiloka hann.“

Tilkynningin í dag fylgir í kjölfar niðurstöðu héraðsdóms á Íslandi, sem úrskurðaði í liðinni viku að Valitor yrði að opna greiðslugátt DataCell innan fjórtán daga.

Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, hefur haldið til í sendiráði Ekvador í London frá 19. júní síðastliðnum. Hann vonast eftir að fá pólitískt hæli í Ekvador svo hann verði ekki framseldur til Svíþjóðar, þar sem hann hefur verið kærður fyrir kynferðisbrot.

Í tilkynningu frá Assange sagði: „Við sigruðum þá á Íslandi og ef Guð lofar sigrum við þá í Frakklandi einnig.“

„Og leyfið þeim að slökkva á okkur. Leyfið þeim að sýna heiminum spillt tengsl sín við Washington. Við bíðum. Lögfræðingar okkar bíða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert