„Fer ekki af fúsum og frjálsum vilja“

Amanda Knox, sem dæmd var til rúmlega 28 ára fangelsisvistar af ítölskum dómurum í gær, kom fram í morgunþætti á ABC sjónvarpsstöðinni í morgun, en hún dvelur í Bandaríkjunum.

Knox sagði að niðurstaðan hefði komið henni verulega á óvart. „Ég trúi ekki mínum eigin eyrum,“ sagði hún. „Ég mun ekki fara til Ítalíu af fúsum og frjálsum vilja.“

Raffaele Sollecito, fyrrverandi kærasti Amöndu Knox, var dæmdur til 25 ár fangelsisvistar í gær, auk þess sem hann var dæmdur í farbann.

Viðeigandi að Knox verði framseld

Lögfróðir menn telja ólíkt að yfirvöld á Ítalíu muni krefjast þess að Knox verði framseld fyrr en endanleg niðurstaða liggur fyrir en Knox og Sollecito hafa bæði sagt að þau muni áfrýja dómnum. Þeir segja einnig að ef Ítalía fari fram á framsal, verði yfirvöld í Bandaríkjunum að ákveða hvort málið falli undir framsalssamning landanna.

Fyrrum skötuhjúin eru dæmd fyrir morðið á Meredith Kercher árið 2007 en hún fannst látin í íbúð sem hún deildi með Knox.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í morgun sagði Lyle, bróðir Kercher, að hann telji viðeigandi að Knox verði framseld. Stephanie, systir Kercher, sagði að fjölskyldan leitaði enn sannleikans.

Sollecito, fannst í morgun ásamt kærustu sinni nálægt landamærum Austurríkis.

Amanda Knox
Amanda Knox AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert