Fegin að þurfa ekki að taka í höndina á Pútín

Valerie Trierweiler, fyrrverandi sambýliskona François Hollande
Valerie Trierweiler, fyrrverandi sambýliskona François Hollande AFP

Valerie Trierweiler, fyrrverandi sambýliskona François Hollande, forseta Frakklands, sér ákveðna kosti við sambandsslitin – hún þarf ekki að taka í höndina á Vladimír Pútín, forseta Rússlands, í dag. Þeir Pútín og Hollande munu hittast í tengslum við athöfn sem tengist því að sjötíu ár eru liðin frá innrásinni í Normandí. 

Ummælin lét Trierweiler falla eftir að Pútín hafði gagnrýnt Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi. Telja ýmsir ummæli Pútíns lýsa kvenfyrirlitningu. Eftir fréttina skrifaði Trierweiler á Twitter: „Fegin að þurfa ekki að taka í höndina á Pútín.“

Pútín er að koma til Frakklands líkt og fjölmargir þjóðarleiðtogar í tengslum við að þess er minnst að 70 ár eru liðin frá innrásinni. Hann mun borða með Hollande í kvöld.

Clinton sakaði Pútín nýverið um að reyna að endurskipuleggja landamæri í Austur-Evrópu líkt og Adolf Hilter gerði á fjórða áratug síðustu aldar. Spurður út í þetta svaraði Pútín því til að það borgi sig ekki að deila við konur. „En Clinton hefur nú aldrei verið neitt sérstaklega þokkafull í yfirlýsingum sínum.“ 

Forsetinn reyndi ekki að leyna því hversu öfgafull honum þætti ummæli utanríkisráðherrans fyrrverandi. „Þegar fólk hreyfir of mikið við landamærum þá er það ekki vegna þess að þau eru of sterk heldur vegna þess að þau eru of veik,“ segir Pútín og bætti við „En kannski er veikleiki ekki versti eiginleikinn sem getur einkennt konu.“

Trierweiler og Hollande slitu sambúðinni í janúar eftir að upp komst um ástarsamband hans og leikkonunnar Julie Gayet. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert