Síðasti uppreisnarmaðurinn látinn

Samuel Willenberg
Samuel Willenberg AFP

Pólverjinn Samuel Willenberg var nítján ára þegar hann var sendur í fangabúðir nasista, Treblinka. Hann lést á föstudag 93 ára að aldri en hann var sá síðasti sem var enn á lífi af þeim föngum sem tóku þátt í uppreisn í búðunum 1943.

Yad Vashem Holocaust stofnunin greindi frá andláti hans í dag en útförin fer fram á morgun. Willenberg bjó í bænum Opatow þegar allir gyðingar í bænum voru sendir í Treblinka-búðirnar. Um 870 þúsund gyðingar voru drepnir þar þá þrettán mánuði, frá júlí 1942 til ágúst 1943, sem búðirnar voru starfræktar.

Í frétt Jerusalem Post segir að Willenberg hafi komist hjá því að vera sendur strax í gasklefann með því að segjast vera málari og smiður. Því var hann settur í viðhaldsvinnu í búðunum í stað gasklefans líkt og flestir þeirra sem sendir voru í Treblinka.

2. ágúst 1943 tók hann þátt, ásamt 200 samföngum sínum, í uppreisn í búðunum. Þeir brutust inn í vopnabúr SS og skutu á kvalara sína og kveiktu í búðunum. Flestir fanganna létust þar sem fangaverðirnir skutu á þá úr öllum áttum. Af þeim 750 föngum sem reyndu að flýja tókst 70 ætlunarverkið. Willenberg var einn þeirra en hann særðist á fæti á flóttanum. Hann gekk til liðs við pólsku andspyrnuhreyfinguna.

Árið 1950 flutti hann til Ísrael þar sem hann starfaði við högglist. Meðal verka hans eru fimmtán höggmyndir frá Treblinka sem hafa verið á sýningum í Ísrael, Póllandi og Þýskalandi.

„Þegar þú sérð höggmyndir mínar - þá sérðu Treblinka,“ sagði hann í viðtali 2011. Í bók hans Uppreisnin í Treblinka segir hann að það eina sem hafi verið í huga þeirra var að eyða dauðaverksmiðjunni sem var orðin að heimili þeirra.

Járnbrautarteinarnir að Treblinka
Járnbrautarteinarnir að Treblinka Af vef Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert