Skjóta Sýrlendinga við landamærin

Hópur sýrlenskra flóttamanna við girðingar á landamærum Sýrlands og Tyrklands.
Hópur sýrlenskra flóttamanna við girðingar á landamærum Sýrlands og Tyrklands. AFP

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch biðja stjórnvöld í Tyrklandi um að hætta að skjóta á Sýrlendinga á flótta sem reyna að komast inn fyrir landamæri Tyrklands. Biðja þau Tyrki þess í stað að opna landamæri sín fyrir þeim sem leita hælis undan stríðinu. 

Frá því um miðjan desember hafa um 270 þúsund íbúar í Idlib-héraði í Sýrlandi þurft að leggja á flótta vegna áhlaups stjórnarhersins á svæðinu, að því er fram kemur í skýrslu Sameinuðu þjóðanna. 

Margt af þessu fólki hefur reynt að flýja til Tyrklands en þar hafa landamæraverðir skotið á það, að því er mannréttindasamtökin segja. 

Í Tyrklandi hafast nú þegar við um 3,5 milljónir sýrlenskra fóttamanna. Tyrkir hafa síðustu misseri reynt að koma í veg fyrir að fleiri bætist í þann hóp, m.a. með hertu landamæraeftirliti.

Dæmi eru um að sýrlenskir flóttamenn neyðist til að nýta sér þjónustu smyglara. Margir úr þessum hópi hafa rætt við starfsmenn mannréttindasamtakanna um þá reynslu sína. 

„Sýrlendingar sem flýja til Tyrklands í leit að öryggi og hæli hafa verið beittir valdi með byssukúlum og ofbeldi,“ segir Mala Fakih, yfirmaður Human Rights Watch í Mið-Austurlöndum. 

Flóttafólkið segir að það hafi verið hneppt í varðhald, barið og því neitað um læknishjálp. Þá segir einn hópurinn að í það minnsta tíu manns, þeirra á meðal barn, hafi verið skotnir af landamæravörðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert