„Það hefur aldrei verið neitt stríð“

„Talibani, hvað er það?“ spyr Sultan Begium feimnislega þar sem hún ræðir við fréttamann AFP í kuldalegum heimkynnum sínum í Wakhan-fjallasvæðinu í Afganistan. Svæðið er svo afskekkt að íbúar þess eru með öllu ósnortnir af áratugaátökum sem hafa valdið svo mikilli eyðileggingu annars staðar í landinu.

Náttúruöflin hafa engu að síður farið óblíðum höndum um þessa fínlegu, öldruðu konu. Andlit hennar er alsett djúpum hrukkum, en Begium er í hópi þeirra 12.000 einstaklinga sem tilheyra Wakhi-ættbálkinum, hirðingjaþjóð sem býr á svæðinu.

Sultan Begium með barnabarn sitt fyrir utan heimili sitt. Þau ...
Sultan Begium með barnabarn sitt fyrir utan heimili sitt. Þau eru í hópi þeirra 12.000 einstaklinga sem tilheyra Wakhi-ættbálkinum, hirðingjaþjóð sem býr á „þaki heimsins“. AFP

Þak heimsins eða Bam-e-Dunya er nafnið sem heimamenn hafa gefið þessu hrjóstruga og illaðgengilega svæði í fjalllendinu á landamærum Afganistan, Tajikistan og Pakistan. Raunar teygir þak heimsins sig alla leið yfir að landamærum Kína líka.

„Stríð, hvaða stríð?

Mjög fáir heimamenn fara þaðan árlega og enn færra fólk kemur þangað. Þessi einangrun hefur þó líka veitt Wakhi-fólkinu ákveðna vernd gegn nær stöðugum átökum annars staðar í Afganistan síðustu fjörutíu árin sem hefur kostað svo marga íbúa landsins lífið.

„Stríð, hvaða stríð? Það hefur aldrei verið neitt stríð,“ segir Begium og skarar eld að þurrkaðri jakuxamykju sem hún brennir í eldstó sinni. Hún minnist þess þó að hafa heyrt fólk tala um að rússneskir hermenn hefðu dreift sígarettum á landamærunum.

Slíkar sögur af innrás Sovétmanna og stuðningur Bandaríkjanna við uppreisnarmenn í Afganistan er nokkuð sem flestir Wakhi-menn kannast við. Minna fer hins vegar fyrir þekkingu á blóðugu níu ára stríði sem kann að hafa kostað allt að milljón almenna borgara lífið og hrakið hundruð þúsund til viðbótar frá heimilum sínum.

Kona af Wakhi-ættbálkinum sýður hér vatn utandyra fyrir þvott sem ...
Kona af Wakhi-ættbálkinum sýður hér vatn utandyra fyrir þvott sem hún er að þvo. Ekkert rafmagn er á svæðinu og útvarpssamband er sjaldgæfur lúxus á meðan rafhlöðurnar í útvarpinu endast. Eftir það tekur þögnin við. AFP

Borgarastríðið sem fylgdi í kjölfarið og stjórnartíð Talibana hljómar þá í þeirra eyru eins og þjóðsaga.

„Talibanar eru vont fólk frá öðru landi sem nauðga sauðfé og drepa fólk,“ segir Askar Shah, elsti sonur Begium. Hann hefur heyrt sögur um Talibana frá pakistönskum kaupmönnum.

Enn minni þekking er þá á innrás Bandaríkjahers og bandamanna þeirra og blóðugum átökum þeirra viðTalibana, hvað þá af myndun Ríkis íslams, samtaka sem kunna að hafa drepið og myrt hundruð þúsunda Afgana.

Ósnert af afskiptum stjórnvalda frá því á 19. öld

„Réðust útlendingar inn í land okkar?“ spyr Askar Shah vantrúaður er blaðamaður segir honum frá stríði Bandaríkjanna og bandamanna þeirra gegn stjórn Talibana árið 2001.

„Nei, þeir geta ekki gert það. Þetta er gott fólk,“ segir hann.

Fjölskylda af Wakhi-ættbálkinum. Blóðug átök síðustu 40 ára í öðrum ...
Fjölskylda af Wakhi-ættbálkinum. Blóðug átök síðustu 40 ára í öðrum hlutum Afganistan hafa farið fram hjá íbúum á Wakhan-svæðinu, enda eru þeir að stórum hluta einangraðir frá umheiminum. AFP

Bam-e-Dunya  varð til á 19. öld sem eins konar stuðpúði milli veldis rússneska zarsins og bresku stjórnarinnar á Indlandi. Frá þeim tíma hefur svæðið verið ósnortið af afskiptum nokkurra stjórnvalda.

Hægt er að komast til Bam-e-Dunya frá öllum löndunum sem þar eiga landamæri að, en ferðin er hættuleg og ekki er hægt að komast þangað nema fótgangandi, á hestbaki eða með hjálp jakuxa og liggur ferðin í gegnum „Pamir-hnútinn“ þar sem þrír hæstu fjallgarðar í heimi koma saman.

Afganar kalla Wakhi-fólkið Pamiris og eru þeir stærsti hluti íbúa á svæðinu. Þar búa þó einnig hirðingjar af kirgiskum ættum, en þeir eru ekki nema um 1.100 talsins og búa á hinum enda svæðisins.

Glæpir og ofbeldi í lágmarki

Wakhi-fólkið er múslimar og fylgjendur Aga Khan. Búrkan, sem setur svo sterkan svip á klæðnað kvenna annars staðar í Afganistan, er með öllu óþekkt í þessu hrjóstruga fjalllendi.

Glæpir og ofbeldi eru líka í algjöru lágmarki og líf íbúa snýst um jakuxa og búfénað, sem þeir skipta út fyrir fatnað og matvæli við þá fáu kaupmenn sem þangað koma.

Kaupmenn á leið frá Hunza-dalnum í Pakistan með jakuxa sína ...
Kaupmenn á leið frá Hunza-dalnum í Pakistan með jakuxa sína að Wakhan-svæðinu í Afganistan. Ferðalagið er hættulegt enda svæðið erfitt yfirferðar og fáir sem leggja það á sig að fara þangað. AFP

Ekkert rafmagn er heldur á svæðinu og þar af leiðandi ekkert net- eða farsímasamband. Hafa íbúar því oft samband hver við annan í gegnum talstöð.

Einstaka sinnum heyrist í útvarpi og þá er hlustað á rússneskar útsendingar eða afganskar fréttir. Írönsk tónlist er einnig vinsæl, en sjaldan gefst tækifæri á að hlusta og þegar batteríin eru dauð dettur þögnin yfir á ný þar til kaupmennirnir koma aftur.

Hitastigið er líka undir frostmarki í meira en 300 daga á ári, þannig að lífið á þaki heimsins er engin sveitasæla.

Jafnvel væg flensa getur reynst banvæn og rétt rúmur helmingur barna lifir af fæðingu. Sorgin sem slíku fylgir hefur aukið notkun á eina fíkniefninu sem þarna er aðgengilegt – ópíumi.

Allir háðir ópíumi

„Ópíum er það eina sem við eigum sameiginlegt með Afgönum,“ segir Nazar, einn íbúanna. „Allir íbúar hér eru háðir því.“

Breytingar kunna þó að vera á sjóndeildarhringnum. Afgönsk stjórnvöld hafa greint frá því að þau séu nú að rannsaka svæðið úr lofti til að skoða mögulegar leiðir til að tengja Wakhan við aðra hluta Badakhshan-héraðs með vegalagningu.

Karlmenn af Wakhi-ættflokkinum reykja hér ópíum. Það er eina fíkniefnið ...
Karlmenn af Wakhi-ættflokkinum reykja hér ópíum. Það er eina fíkniefnið sem íbúar hafa aðgang að og segir Nazar, einn íbúanna, alla á svæðinu vera háða því. AFP

Þá eiga kínversk stjórnvöld einnig í viðræðum við ráðamenn í Kabúl um að reisa herstöð við norðurenda svæðisins.

Aukin viðskipti, ferðaiðnaður og aukin læknisaðstoð gætu þá borist til Wakhan í kjölfarið, en um leið kann Wakhi-fólkið að missa þá vernd sem einangrunin hefur veitt því gegn hörmungum styrjalda.

mbl.is
INTENSIVE ICELANDIC, ENGLISH, NORWEGIAN & DANISH f. foreigners - ÍSLENSKA f. útlendinga - ENSKA f. fullorðna - NORSKA
ÍSLENSKA, ENSKA, NORSKA, DANSKA I, II, III, IV, V, VI: STARTING DATES 2019: ...
Til sölu Skoda 110L árg 1976.
Bíllinn er nokkuð heillegur. Ýmislegt grams fylgir með, t.d. nýtt framstykki,...
SUMARHÚS- GESTAHÚS- BREYTINGAR
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...