Ákærður fyrir 17 morð af yfirlögðu ráði

Nikolas Cruz var rekinn úr Mar­jory Stonem­an Douglas-fram­halds­skól­anum í Park­land …
Nikolas Cruz var rekinn úr Mar­jory Stonem­an Douglas-fram­halds­skól­anum í Park­land í Flórída fyrir agabrot. Í gær skaut hann 17 manns til bana og særði 14 í skotárás á skólann. AFP

Nikolas Cruz, 19 ára fyrrverandi nemandi við Mar­jory Stonem­an Douglas-fram­halds­skól­ann í Park­land í Flórída, hefur verið ákærður fyrir að hafa framið 17 morð af yfirlögðu ráði við skólann í gær. Hann er nú í varðhaldi í fangelsi í Broward-sýslu.

17 létust og 14 særðust þegar Cruz hóf skotárás í skólanum í gær. Cruz hafði verið rekinn úr skólanum vegna agabrots en gekk inn á skólalóðina þegar skóladeginum var að ljúka í gær. Hann var með gasgrímu fyr­ir vit­un­um, vopnaður árás­arriffli og hand­sprengj­um.

Árásarmaðurinn er Nicolas Cruz, 19 ára.
Árásarmaðurinn er Nicolas Cruz, 19 ára. AFP

Lögreglan komst á slóð Cruz eftir að skoða eftirlitsmyndavélar skólans og handtók hann skammt frá skól­an­um skömmu eft­ir árás­ina.

„Þetta er hörmulegt,“ segir Scott Isra­el, lög­reglu­stjóri í Brow­ard-sýslu, sem á þrjú börn sem eru útskrifuð frá skólanum. „Ég er í raun bara orðlaus.“

AR-15-riffillinn sem Cruz notaði í skotárásinni var keyptur með löglegum hætti, að því er yfirvöld vestanhafs hafa staðfest og í frétt CNN kemur fram að Cruz hafi staðist bakgrunnsskoðun við vopnakaup sín. Talið er að hann eigi stórt vopnabúr og var hann óhræddur við að tjá sig um skotvopn sín á samfélagsmiðlum, auk þess sem hann birti myndir af sér með skotvopn á Instagram.

Frétt mbl.is: „Ég vil deyja í bardaga“

Trump segir Cruz eiga við geðræn vandamál að stríða

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tjáð sig um skotárásina á Twitter þar sem hann segir ótalmargar vísbendingar gefa til kynna að Cruz hafi átt við geðræn vandamál að stríða. Vísbendingarnar að mati forsetans eru meðal annars þær að hann hafi verið rekinn úr skólanum fyrir slæma og óstöðuga hegðun.

„Nágrannar og skólafélagar vissu að hann væri til vandræða. Það þarf alltaf að tilkynna slíka hegðun til yfirvalda, aftur og aftur!“ tísti Trump í dag. 

Færslan hefur vakið ýmis viðbrögð og er forsetanum meðal annars bent á að byssulöggjöfin í Bandaríkjunum gerði Cruz meðal annars kleift að komast yfir hálfsjálfvirkan riffil á löglegan hátt.

„Ég fer ekki í skólann á Valentínusardaginn“

Báðir foreldrar Cruz, sem er ættleiddur, eru látnir. Móðir hans, Lynda Cruz, lést í nóvember og hefur hann séð um sig sjálfur síðan, að sögn frænku hans, en dvalið um tíma hjá fjölskylduvinum. Jim Lewis, lögmaður fjölskyldunnar sem Cruz hefur búið hjá, segir að þau hafi greint þunglyndiseinkenni hjá honum, en aldrei grunað að hann væri fær um fremja voðaverk í líkingu við það sem hann framdi í gær.

Á venjulegum miðvikudegi hefði Cruz sótt tíma fyrir fólk sem er utan skóla, en fjölskyldan sem hann bjó hjá hafði hvatt hann til að halda áfram að stunda nám eftir bestu getu. Í gær neitaði hann hins vegar að fara á fætur. „Það er Valentínusardagur. Ég fer ekki í skólann á Valentínusardaginn,“ sagði Cruz. Í staðinn fór hann í gamla skólann sinn og skaut 17 manns til bana.

Skotárás­in er ein sú mann­skæðasta í skóla í Banda­ríkj­un­um frá því að árás var gerð í Conn­ecticut árið 2012. Þá lét­ust 26. Þrjár af tíu mannskæðustu skotárásum á skóla í sögu Bandaríkjanna hafa átt sér stað á síðustu fimm mánuðum.

Frétt New York Times

Cruz er nú í varðhaldi í Broward County-fangelsinu í Fort …
Cruz er nú í varðhaldi í Broward County-fangelsinu í Fort Lauderdale í Flórída. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert