„Ég vil deyja í bardaga“

Af Instagram-síðu Nikolas Cruz.
Af Instagram-síðu Nikolas Cruz. Af Instagram

Nikolas Cruz er einfari. Honum hafði verið vikið úr framhaldsskóla í Flórída vegna agavandamála. Myndin sem hann dró upp af sjálfum sér á samfélagsmiðlum var ógnandi. Þar mátti m.a. sjá hann halda byssu á lofti fyrir andliti sínu. Í gær fór þessi nítján ára gamli piltur inn í gamla skólann sinn með gasgrímu fyrir vitunum, vopnaður árásarriffli og handsprengjum. Hann byrjaði að skjóta fyrir utan bygginguna og felldi þar þrjá. Inni í skólanum skaut hann fleiri og í heildina banaði hann sautján starfsmönnum og nemendum. Nokkur fórnarlömb hans liggja særð á sjúkrahúsi.

Cruz kveikti svo á eldvarnarkerfi skólans í þeim tilgangi að fá alla út úr skólastofunum svo hann ætti hægara um vik að skjóta og drepa. Hann var handtekinn skammt frá skólanum nokkru eftir árásina. Komst lögreglan á slóð hans eftir að skoða eftirlitsmyndavélar skólans.

Lögreglan að störfum við framhaldsskólann Marjory Stoneman Douglas í gærkvöldi.
Lögreglan að störfum við framhaldsskólann Marjory Stoneman Douglas í gærkvöldi. AFP

Lögreglan rannsakar nú hið rafræna fótspor hans eins og það er orðað. Og það sem hefur komið í ljós er „mjög, mjög óhugnanlegt,“ að sögn lögreglustjórans í Broward-sýslu. Cruz er talinn hafa átt heilt vopnabúr og hafði oftsinnis sett ógnandi færslur á samfélagsmiðla. „Ég vil skjóta fólk með AR-15-rifflinum mínum,“ sagði hann m.a. á myndskeiði sem hann birti á YouTube. „Ég vil deyja í bardaga og drepa skítnóg af fólki,“ og „ég ætla að drepa lögreglumenn einn daginn því þeir eltast við gott fólk.“

Á Instagram hafði hann birt myndir af byssum og hnífum. Í frétt CNN segir að Cruz hafi keypt byssurnar á síðasta ári og að hann hafi staðist bakgrunnsskoðun við kaupin að því er næst verður komist. 

Cruz var rekinn úr framhaldsskólanum Marjory Stoneman Douglas vegna agavandamála. Að sögn starfsmanna og nemenda skólans virtist hann ekki eiga neina vini. „Hann var alltaf þögull og virtist skrítinn,“ segir einn nemandinn í samtali við CNN. „Hann sagði mér frá því að hann hefði verið rekinn úr tveimur einkaskólum. Hann vildi ganga í herinn. Hann hafði gaman af því að veiða.“

Fjölmiðlar vestanhafs segja að hann hafi farið í gegnum einhverja herþjálfun árið 2016. 

Missti móður sína í nóvember

Cruz var ættleiddur og hét móðir hans Lynda Cruz. Hún lést í nóvember eftir að hafa veikst illa af flensu og fengið lungnabólgu, að því er fram kemur í frétt CNN. Faðir hans hafði látist fyrir meira en áratug úr hjartaáfalli.

Frænka piltsins, sem CNN ræðir við, segir að frá því að móðir hans dó hafi hann verið einn á báti. Hann hafi búið um tíma hjá fjölskylduvinum, að því er yfirvöld í Flórída segja. „Þeir buðu honum heimili og reyndu að hjálpa honum því hann hafði ekki í nein önnur hús að venda,“ sagði Jim Lewis, lögmaður fjölskyldunnar sem skaut yfir hann skjólshúsi, við sjónvarpsstöðina WPEC. „Þau eru miður sín,“ segir Lewis um líðan fjölskyldunnar. „Sonur hjónanna gekk í þennan sama skóla. Þeim þótti vænt um strákinn og vildu virkilega reyna að hjálpa honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert