Weinstein snýr aftur til Hollywood

Búið er að stilla Weinstein upp á Hollywood Walk of …
Búið er að stilla Weinstein upp á Hollywood Walk of Fame. AFP

Svo virðist sem kvikmyndaframleiðandinn Harvey Weinstein hafi snúið aftur til Hollywood, rétt í tæka tíð fyrir Óskarsverðlaunahátíðina sem fer fram á sunnudag. Reyndar ekki í eigin persónu, heldur í formi gylltrar styttu í sem götulistamaðurinn Plastic Jesus útbjó og kom fyrir á Hollywood Walk of Fame í gær. Styttan, sem situr í gylltum sófa, er klædd í silkináttföt og heldur á lítilli Óskarsverðalaunastyttu. Um er að ræða háð eða ádeilu, en listamaðurinn er þekktur fyrir slík verk.

Yfir hundrað konur í kvikmyndabransanum hafa sakað Weinstein um nauðgun, kynferðisofbeldi og kynferðislega áreitni og hafa einhverjar lagt fram kærur á hendur honum. Weinstein hefur hins vegar neitað öllum ásökunum um að hafa þvingað konur til samræðis við sig.

Listamaðurinn, Plastic Jesus, segir það hafa tekið tvo mánuði að …
Listamaðurinn, Plastic Jesus, segir það hafa tekið tvo mánuði að útbúa styttuna. AFP

Líkt og breski götulistamaðurinn Banksy viðheldur Plastic Jesus nafnleynd, en hann segir það hafa tekið sig tvo mánuði að útbúa styttuna. Kostnaðurinn við hana mun allur hafa verið greiddur með frjálsum framlögum.

Styttan var sett upp sama dag og tilkynnt var að tekist hefði að bjarga fyrirtæki Weinstein frá gjaldþroti, en því verður nú stýrt af fjölmennri kvenstjórn, eftir að hópur fjárfesta, undir forystu Mariu Contreras-Sweet greiddi 500 milljónir dollara fyrir eignir félagsins.

Tilkynnt var í gær að tekist hefði að forða fyrirtæki …
Tilkynnt var í gær að tekist hefði að forða fyrirtæki Weinstein frá gjaldþroti. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert