Trump talar niður þýsk stjórnvöld

Trump hikar ekki við að gagnrýna stjórnvöld meintra bandalagsríkja Bandaríkjanna.
Trump hikar ekki við að gagnrýna stjórnvöld meintra bandalagsríkja Bandaríkjanna. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti tók til Twitter í dag, sem fyrri daginn. Í þetta sinn til að gagnrýna þýsk stjórnvöld. Í færslu sem birtist fyrir stuttu segir Trump þýskan almenning vera að snúast gegn stjórnvöldum þar í landi og kennir innflytjendastefnu stjórnvalda um. Segir Trump glæpatíðni í Þýskalandi á uppleið, án þess að gefa frekari skýringar á þeim tölum.

Bent hefur verið á að yfirlýsingar forsetans eigi ekki við rök að styðjast. Glæpum í Þýskalandi hefur þvert á móti fækkað síðastliðin ár og var glæpatíðni í fyrra sú lægsta frá árinu 1992 að því er fram kemur í skýrslu þýsku lögreglunnar, sem kynnt var í síðasta mánuði. Þar kom fram að 5,76 milljón glæpir hefðu verið tilkynntir til lögreglu í fyrra, rúmlega fimm prósentum færri en árinu áður.

Ríkisstjórn Þýskalands á í innbyrðis deilum vegna innflytjendastefnu sinnar. Horst Seehofer er innanríkisráðherra Þýskalands og meðlimur CSU, systurflokks Kristilegra demókrata (CDU) í Bæjaralandi. Hann og flokkssystkin hans á þingi hafa sagst vilja vísa hælisleitendum sem þegar eru skráðir öðrum Evrópusambandsríkjum frá við þýsku landamærin takist Merkel ekki að tryggja samkomulag ESB-ríkja um móttöku flóttamanna. Slíkt samkomulag hefur lengi staðið til, en aldrei náð fram að ganga vegna andstöðu nokkurra bandalagsríkja, einkum Visegrad-ríkjanna fjögurra Tékklands, Ungverjalands, Póllands og Slóvakíu.

Politico um lága glæpatíðni í Þýskalandi

Þýska lögreglan við Brandenborgarhliðið.
Þýska lögreglan við Brandenborgarhliðið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert