Tugþúsundir flýja árásir

Flóttafólk frá Daraa-héraði hefur slegið upp tjaldbúðum við landamærin að …
Flóttafólk frá Daraa-héraði hefur slegið upp tjaldbúðum við landamærin að Jórdaníu. AFP

Áhlaup stjórnarhers Sýrlands í suðurhluta landsins hefur neytt yfir 270 þúsund manns til að yfirgefa heimili sín og leggja á flótta, að því er Sameinuðu þjóðirnar segja. 

„Við höfðum gert ráð fyrir að fjöldi þeirra sem myndu flýja yrði um 200 þúsund en hann hefur þegar farið yfir 270 þúsund manns á skömmum tíma,“ segir Mohammad Hawari, talsmaður Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í Amman í Jórdaníu.

Síðustu tvær vikur hefur stjórnarherinn með aðstoð Rússa gert linnulausar loftárásir á borgina Daraa og samnefnt hérað á svæðinu. Um er að ræða svæði sem hefur síðustu misseri verið undir stjórn uppreisnarhópa og er skammt frá landamærunum að Jórdaníu. Meira en 1,5 milljónir flóttamanna frá Sýrlandi eru í Jórdaníu og hefur ríkisstjórnin þar sagt landið komið að þolmörkum og nær ómögulegt sé að taka við fleirum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert