Upptökur á borði FBI

Michael Cohen og Donald Trump.
Michael Cohen og Donald Trump. AFP

Fyrrverandi lögmaður Bandaríkjaforseta, Michael Cohen, tók upp samtal sem hann átti við Donald Trump án vitundar hans tveimur mánuðum fyrir forsetakosningarnar vestanhafs haustið 2016. Upptökurnar eru nú í höndum bandarísku alríkislögreglunnar, FBI.

Frá þessu er greint í New York Times í dag. 

Þar segir að á upptökunni megi heyra Donald Trump ræða við Cohen um greiðslu til fyrrverandi fyrirsætu hjá Playboy, Karen McDougal, sem segist hafa átt í sambandi við Trump.

Bandaríska alríkislögreglan réðst inn á skrifstofu Cohen í byrjun apríl og náði þar í upptökurnar.

Cohen er til rannsóknar hjá bandarísku alríkislögreglunni vegna greiðsla til kvenna fyrir forsetakosningarnar gegn því skilyrði að þær þegðu um tengsl sín við Trump.

Núverandi lögmaður Trump, Rudy Giuliani, staðfestir að upptökurnar séu til en bætti því við að engar greiðslur hefðu átt sér stað og að Trump hefði ekki gert neitt ólöglegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert