Sorg og reiði í Grikklandi

Kona gengur um heimabæ sinn, Neos Voutzas, eftir að skógareldarnir …
Kona gengur um heimabæ sinn, Neos Voutzas, eftir að skógareldarnir þar höfðu verið slökktir í gær. AFP

Sorg og reiði einkennir eftirköst hinna mannskæðu skógarelda í Grikklandi. Ásökunum stjórnvalda um að eldarnir hafi verið kveiktir vísvitandi hefur verið illa tekið af stjórnarandstöðunni. 

Vara-almannavarnaráðherra landsins, Nikos Toskas, sagði í gær að sterkar vísbendingar væru um að eldarnir, sem urðu að minnsta kosti 82 að bana, hefðu verið kveiktir vísvitandi. Eldarnir voru mestir í nágrenni höfuðborgarinnar Aþenu og brann fólk inni í húsum sínum. 

Hjá réttarmeinafræðingum tekur nú við það erfiða verkefni að bera kennsl á lík þeirra sem fórust í hamförunum. Þeir segja líkin mörg hver mjög illa brunnin og því muni taka að minnsta kosti nokkra daga að bera kennsl á þau.

Almenningur hefur gagnrýnt hvernig brugðist var við eldunum og Toskas segir að rannsókn á málinu sé hafin og því hvort um íkveikjur var að ræða. Íbúar þorpa sem urðu hvað verst úti segja aðstoð hafa borist seint og gagnrýna hvernig fjármunum sem varið er til björgunaraðgerða og neyðaraðstoðar hefur verið útdeilt.

Yfirvöld segja að af gervitunglamyndum megi ráða að eldar hafi brotist út á þrettán stöðum nær samtímis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka