Viðvarandi vandi, ekki sögulegur

Reinhard Marx, æðsti yfirmaður katólsku kirkjunnar í Þýskalandi, stýrir guðsþjónustu …
Reinhard Marx, æðsti yfirmaður katólsku kirkjunnar í Þýskalandi, stýrir guðsþjónustu á biskupaþinginu í Fulda þar sem skýrslan um kynferðisofbeldi kirkjunnar þjóna og yfirhylmingu þess áratugum saman var gerð opinber. AFP

Katólska kirkjan í Þýskalandi bað á þriðjudag þúsundir fórnarlamba kynferðisofbeldis afsökunar og sagði æðsti yfirmaður hennar, Reinhard Marx kardináli, að gerendurna ætti að draga fyrir dóm. Enn einu sinni skekur mál af þessum toga katólsku kirkjuna og fer gagnrýni í garð Frans páfa fyrir að taka ekki á þeim af festu og veita jafnvel gerendum skjól vaxandi.

Tilefni afsökunarbeiðninnar var útkoma skýrslu um kynferðisbrot innan kirkjunnar frá 1946 til 2014.

Við gerð skýrslunnar voru rannsökuð 38.000 mál frá 27 biskupsdæmum í Þýskalandi. Þar kemur fram að brotið hafi verið gegn 3677 börnum, undir lögaldri, meirihlutinn drengir. Brotin frömdu 1670 kirkjunnar þjónar. Rúmur helmingur fórnarlambanna var þrettán ára eða yngri þegar brotin voru framin.

Höfundar skýrslunnar sögðu að þetta væri aðeins toppurinn á ísjakanum og vöruðu við því að raunverulegt umfang brotanna væri mun meira. Mörg skjöl hefðu verið eyðilögð eða breytt. Oft hefðu prestar, sem gerst hefðu sekir um kynferðisbrot, verið færðir í annað prestakall án þess að greint væri frá brotasögu þeirra. Er það sama aðferð og ráðamenn katólsku kirkjunnar beittu í öðrum löndum þegar slík mál komu upp.

Aðeins um þriðjungur var tekinn í yfirheyrslu vegna hegðunar sinnar hjá kirkjunni og refsingar flestra voru smávægilegar. Mál 38% fóru fyrir dómstóla.

„Kynferðisofbeldi er viðvarandi vandamál, en ekki sögulegt vandamál,“ sagði Harald Dressing, prófessor við sálfræðistofnunina í Mannheim, sem skipulagði rannsóknina að baki skýrslunni.

Þýska skýrslan hefur verið gagnrýnd. Hún var gerð að beiðni kirkjunnar og kirkjan hafði umsjón með því hvaða gögn voru afhent. Spurt hefur verið hvaða mælikvarðar hafi þar ráðið för, hvaða mál hafi verið talin eiga heima í henni og hvaða mál verið látin óhreyfð. Dressing sagði að þessi aðferð hefði verið samþykkt á forsendum persónuverndar, en spurt hefur verið hvort fræðimennirnir hefðu ekki getað tekið þessar ákvarðanir fremur en kirkjunnar menn og um leið gætt þess að upplýsingar yrðu ekki persónugreinanlegar.

Uppljóstranir víða um lönd

Uppljóstranir um kynferðisbrot presta innan katólsku kirkjunnar ná langt aftur. Ásakanir byrjuðu að koma fram á sjötta áratug 20. aldar. Athygli fjölmiðla fór að beinast að þeim í Bandaríkjunum og Kanada á þeim níunda. Fleiri lönd bættust við á næstu árum og þegar kom fram á þessa öld var kastljósið farið að beinast að kirkjunni í heild sinni.

Skýrslan í Þýskalandi er því enn einn vitnisburðurinn um hvernig kynferðisofbeldi gegn börnum hefur viðgengist innan katólsku kirkjunnar og verið kerfisbundið þaggað niður. Ekki er nema hálfur mánuður síðan birt var skýrsla um kynferðisbrot innan katólsku kirkjunnar í Hollandi frá 1945 til 2010. Þar hylmdi helmingur yfirmanna yfir kynferðislega misnotkun og gerði gerendum kleift að halda brotum sínum áfram refsilaust. Meðal þeirra, sem þar eru nafngreindir, er Jóhannes Gijsen, fyrrverandi biskup katólsku kirkjunnar á Íslandi. Getið er ákæra á hendur honum fyrir tvö kynferðisbrot á milli 1950 og 1970. Einnig er hann sagður hafa tekið þátt í yfirhylmingu og ítrekað fært til í starfi presta, sem vitað væri að níðst hefðu á börnum. Þá hefði hann látið eyða upplýsingum um slæma hegðun nokkurra presta.

Í ágúst kom fram skýrsla um að rúmlega 300 prestar í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum hefðu í sjö áratugi beitt að minnsta kosti þúsund börn kynferðisofbeldi.

Benedikt páfi XVI. fyrirskipaði 2011 að tilkynna ætti grun um kynferðisbrot beint til lögreglu. Áður átti að vísa þeim til Rómar.

Frans páfi hvatti til „afgerandi aðgerða“ þegar hann var kjörinn 2013, en hann hefur legið undir ámæli fyrir að fylgja málum ekki eftir.

Skipuð var sérstök páfanefnd um verndun barna undir lögaldri. Hún hefur sjaldan komið saman og einkum vakið athygli vegna útgöngu tveggja nefndarmanna, sem voru fórnarlömb misnotkunar og kröfðust meira gagnsæis.

Gagnrýni beinist að páfa

Þá hefur Frans verið legið á hálsi fyrir að vernda biskupa og kardinála, sem hafa legið undir grun um að hylma yfir eða jafn vel fremja kynferðisofbeldi. Í predikunum biðji hann fórnarlömb afsökunar og hvetji til umbóta, en þegar komi að einstökum tilfellum hiki hann og aðhafist ekki fyrr en þrýstingur sé orðinn svo mikill að hann geti ekki annað.

Þekktasta dæmið er mál Theodores McCarricks, sem sagði af sér embætti kardinála í Bandaríkjunum fyrr á árinu. Lengi var reynt að hylma yfir að McCarrick hefði kerfisbundið leitað á lærlinga í kirkjunni. Benedikt páfi hafði, að hermt er, takmarkað störf hans og ferðir vegna þessa, en Frans mun hafa aflétt þeim kvöðum. McCarrick var náinn ráðgjafi Frans og leiddi páfi hinar þrálátu ásakanir hjá sér í fimm ár.

Þegar páfi komst til valda gaf hann fyrirheit um breytta tíma með opnari vinnubrögðum og auknum jöfnuði. Ný hvílir skuggi á kirkjunni og styrinn stendur ekki síst um hann.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »