Festa kyrrsetningarbúðir uighur-múslima í lög

Uighur-múslimar í Urumqi fylgjast með kínversku öryggislögreglunni standa vörð við …
Uighur-múslimar í Urumqi fylgjast með kínversku öryggislögreglunni standa vörð við inngangin að hverfi uighur-múslima í borginni. AFP

Kínversk stjórnvöld hafa fest í lög kyrrsetningarbúðir fyrir minnihlutahóp uighur-múslima í vesturhluta Xinjiang-héraðs, að því er BBC greinir frá.

Stutt er frá því mannréttindasamtökin Human Rights Watch greindu frá því að uig­h­ur-múslimar sættu ger­ræðis­leg­um hand­tök­um og marg­vís­leg­um tak­mörk­un­um varðandi trú­ariðkan­ir sínar, auk þess sem póli­tískri inn­ræt­ingu væri þröngvað upp á þá.

Hefur það vakið vaxandi áhyggjur hjá alþjóðasamfélaginu að uighur-múslimar hverfi í stórum stíl og lýsti mann­rétt­inda­stjórn Sam­einuðu þjóðanna því yfir í ág­úst að kín­versk stjórn­völd væru tal­in halda allt að einni millj­ón uig­h­ur-múslima í leyni­leg­um „kyrr­setn­ing­ar­búðum“ í Xi­anjiang-héraði þar sem þeir væru látn­ir sæta póli­tískri inn­ræt­ingu.

Hafa yfirvöld í Xinjiang sagt búðunum ætlað að taka á öfgahyggju í gegnum „hugmyndafræðilega umbreytingu“.

Neyddir til að afneita trú sinni

Mannréttindasamtök segja þá sem í búðunum dvelja hins vegar vera neydda til að sverja Xi Jinping forseta Kína hollustu og afneita trú sinni.

Í ágúst höfnuðu kínversk yfirvöld ásökunum um að hátt í milljón manna væru látin dvelja í slíkum búðum. Á fundi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna viðurkenndu sendifulltrúar Kína hins vegar að uighur-múslimar „sem hefðu látið blekkjast af öfgatrú“ sættu nú endurhæfingu og búferlaflutningum.

Nokkuð hefur verið um átök í Xinjiang-héraði undanfarin ár og hafa kínversk yfirvöld sakað aðskilnaðarsinna úr röðum múslima um að hvetja til óeirða.

Vistaðir fyrir að neita að fylgjast með ríkisfjölmiðlum

Samkvæmt nýju löggjöfinni má dæma fólk til vistar í kyrrsetningarbúðunum fyrir að að neyða aðra til að taka þátt í trúarathöfnum, neita að horfa á ríkissjónvarp eða hlusta á ríkisútvarpið og koma í veg fyrir að börn fái þá menntun sem ríkið veitir þeim.

Ráðamenn fullyrða hins vegar að í kyrrsetningarbúðunum sé fólkinu veitt starfsþjálfun.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt löggjöfina og sagt hana brot á mannréttindum.

Hefur BBC eftir fyrrverandi vistmönnum í búðunum að þeir hafi sætt líkamlegum sem og andlegum pyntingum. Þá hafi heilu fjölskyldurnar horfið.

Þá hefur New York Times eftir fyrrverandi vistmönnum að þeir hafi verið neyddir til að syngja lög á borð við „Án kommúnistaflokksins væri ekkert Nýja-Kína“ og fengu þeir sem ekki mundu textann ekki neinn morgunmat.

mbl.is

Bloggað um fréttina