Morðingi Marinovu framseldur til Búlgaríu

Blómum var komið fyrir við mynd af Viktoriu Marinova í …
Blómum var komið fyrir við mynd af Viktoriu Marinova í borginni Ruse, þar sem hún var myrt. AFP

Maðurinn sem grunaður er um að hafa nauðgað og myrt búlgörsku fréttakonuna Viktoriu Marinovu verður framseldur frá Þýsklandi til Búlgaríu á næstu dögum.

„Búast má við framsali hins ákærða fljótlega,“ sagði í yfirlýsingu frá dómstólnum í Celle í Þýskalandi. Einnig kom þar fram að maðurinn, sem var handtekinn á þriðjudag á grundvelli evrópskrar handtökutilskipunar, hafi við yfirheyrslur sagt að hann „hafi ekki viljað myrða Marinovu og að hann neiti að hafa nauðgað henni.“

„Hinn handtekni játaði fyrir dómi að hafa rifist við fórnarlambið 6. október 2018,“ segir í yfirlýsingunni. „Hann var á þeim tímapunkti undir miklum áhrifum áfengis og fíkniefna og kýldi konuna í andlitið. Við það datt hún. Hann tók hana því næst upp og henti henni inn í runna og yfirgaf að því loknu staðinn.“

Maðurinn er sagður heita Sever­in Kasim­irov og er fædd­ur árið 1997. Hann er einnig grunaður um að hafa nauðgað og myrt aðra konu. 

Dánarorsökin höfuðhögg og kæfing

Búlgörsk yfirvöld hafa greint frá því að dánarorsök Marinovu hafi verið högg sem hún fékk í höfuðið, auk þess sem hún var kæfð. Þá hafi henni einnig verið nauðgað.

Rík­is­sak­sókn­ari Búlgaríu, Sot­ir Tsatsarov, hafði áður greint frá því að ekki væri talið að morðið teng­ist starfi henn­ar sem blaðamanns. Held­ur sé um morð tengt kyn­ferðis­legu of­beldi að ræða.

Lík Mar­in­ovu fannst í al­menn­ings­garði í borg­inni Ruse í norður­hluta Búlgaríu á laug­ar­dag. Henni hafði einnig verið nauðgað. Á mánu­dag var greint frá því að Mar­in­ova hafi verið sleg­in í höfuðið og kæfð. Sími henn­ar, bíllykl­ar, gler­augu og hluti af föt­um henn­ar fund­ust ekki á vett­vangi. Fleiri hundruð tóku þátt í minn­ing­ar­at­höfn­um um hana í Búlgaríu á mánu­dags­kvöldið. 

Mar­in­ova starfar hjá búlgarskri sjón­varps­stöð en Búlga­ría er það ríki Evr­ópu­sam­bands­ins sem virðir frelsi fjöl­miðla minnst sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá sam­tök­un­um Blaðamenn án landa­mæra. Þátt­ur sem Mar­in­ova starfaði við nefn­ist Detector og er spjallþátt­ur. Ný­verið var hún með viðtal við tvo búlgarska rann­sókn­ar­blaðamenn sem hafa unnið að rann­sókn á spill­ing­ar­máli tengdu búl­görsk­um stjórn­mála­mönn­um og kaup­sýslu­mönn­um sem grunaðir eru um að hafa dregið sér fé úr sjóðum ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert