Rithöfundur hafður að skotspæni

Verk Picasso, Tete d'Arlequin.
Verk Picasso, Tete d'Arlequin.

Rithöfundur sem taldi sig hafa fundið málverk eftir Pablo Picasso sem  var stolið í Rotterdam árið 2012 greindi frá því í gær að hann hefði verið gabbaður. 

Hollenski rithöfundurinn Mira Feticu skrifaði skáldsögu byggða á listaverkaráninu í Rotterdam á sínum tíma. Verk Picasso, Tete d'Arlequin, er eitt sjö málverka sem var stolið í  Kunsthal-safninu en ekkert hefur spurst til verkanna síðan þá. Auk Picasso var um málverk eftir Monet, Gauguin, Matisse og Lucian Freud að ræða. 

Feticu taldi að hún hefði fundið Picasso-verkið eftir að hafa fengið nafnlaust bréf fyrir um tíu dögum þar sem hún fékk leiðbeiningar um hvar verkið væri að finna í Rúmeníu.

Feticu, sem á ættir að rekja til Rúmeníu, segir að hún hafi fylgt leiðbeiningum sem komu fram í bréfinu og grafið listaverkið upp í skógi í austurhluta Rúmeníu. Verkinu var pakkað í plastpoka. Rúmensk yfirvöld fengu verkið í sínar hendur á laugardagskvöldið og sögðu að verkið gæti mögulega verið eftir Picasso en umrætt verk er metið á 800 þúsund evrur, 113 milljónir króna. 

Í gærkvöldi greindi Feticu hollenska ríkissjónvarpinu frá því að hún væri fórnarlamb gjörnings tveggja belgískra leikstjóra í Antverpen. Feticu segist hafa fengið tölvupóst frá belgíska tvíeykinu þar sem fram kom að bréfið hafi verið hluti af verkefni sem nefnist „True Copy“ og væri tileinkað þekktum hollenskum falsara,  Geert Jan Jansen, en verk sem hann falsaði flæddu um listaheiminn í Evrópu þangað til hann var gripinn glóðvolgur árið 1994.

Höfundar gjörningsins, Bart Baele og Yves Degryse, vilja ekki tjá sig frekar um verkið fyrr en þeir hafa rætt persónulega við Feticu. Þeir heita því að upplýsa málið á næstu dögum.

Fjórir Rúmenar voru dæmdir í fangelsi árið 2014 fyrir aðild að ráninu og gert að greiða 18 milljónir evra til tryggingafélaga sem verkin voru tryggð hjá. Ein úr hópnum, Olga Dogaru,  sagði lögreglu að hún hafi brennt málverkin til þess að vernda son sinn, Radu, þegar hann náði ekki að selja verkin. Hún dró síðan framburðinn til baka síðar en áður var talið að verkin hefðu verið eyðilögð þar sem ekki tókst að finna kaupanda. 

Sérfræðingar frá ríkislistasafni Rúmeníu rannsökuðu ösku úr eldavél á heimili Dogaru og fundu leifar að minnsta kosti þriggja olíumálverka. Um var að ræða liti sem ekki eru lengur notaðir af listamönnum.

AFP
Autt pláss þar sem verk Henri Matisse var áður en …
Autt pláss þar sem verk Henri Matisse var áður en því var stolið úr Kunsthal-safninu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert