Musk vill fara til Mars

Elon Musk.
Elon Musk. AFP

Elon Musk, stofnandi bílaframleiðandans Tesla, íhugar að flytja til Mars og segir líkurnar á því um 70%. „Ég veit akkúrat hvað þarf að gera,“ segir Musk í viðtali sem verður sýnt í sjónvarpi í kvöld.

Hann ýjar að því að flutningurinn gæti verið varanlegur. „Við höldum að það sé hægt að koma til baka en erum ekki viss.“

Árið sem senn er á enda hefur verið erfitt fyrir Musk. Kafari kærði Musk fyrir meiðyrði en Musk sakaði hann um að vera barnaníðingur. Kafarinn er einn þeirra kafara sem komu að björgun tólf taílenskra drengja úr helli fyrr á árinu.

Auk þess þurfti hann að greiða háa sekt vegna um­mæla á Twitter um að hann hefði ákveðið að taka Tesla af markaði, en síðar hætti hann við þau áform.

Musk hefur áður sagt að hann vilji ferðast til Mars. Í viðtalinu sem verður sýnt í kvöld segir Musk að það séu 70% líkur á því að hann lifi ferðalagið af í einni af geimflaugum fyrirtækis síns, SpaceX.

„Líkurnar á dauða á Mars eru mun meiri en á jörðinni. Þetta verður erfitt,“ segir Musk. Hann býst við mikilli vinnu, takist honum að lenda á plánetunni.

mbl.is