Dómur yfir erkibiskupi ógiltur

AFP

Verulegar efasemdir eru um sekt fyrrverandi erkibiskups kaþólsku kirkjunnar sem var dæmdur fyrr á árinu fyrir að hafa haldið barnaníði innan kirkjunnar leyndu. 

Philip Wilson var dæmdur í tólf mánaða fangelsi í maí og naut þess vafasama heiðurs að vera einn æðsti maður kirkjunnar í Ástralíu sem dæmdur er fyrir að hafa leynt barnaníði innan veggja kirkjunnar. Dómurinn yfir Wilson var ógiltur fyrr í morgun. 

Wilson var ákærður á sínum tíma fyrir að hafa leynt níðingsverkum James Patrick Fletcher, prests í Hunter-héraði í New South Wales á áttunda og níunda áratugnum. 

Dómari við áfrýjunardómstól, Roy Ellis, sagði við uppkvaðningu dómsins í morgun að ekki væru nægar sannanir fyrir vitneskju biskupsins og því yrði hann að ógilda fyrri dóminn. 

Wilson sagði af sér sem erkibiskup í Adelaide í júlí eftir að þáverandi forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, óskaði eftir því við Páfagarð að hann yrði rekinn.

Enginn efi er um að Fletcher, sem lést í fangelsi árið 2006, hafi beitt altarisdreng kynferðislegu ofbeldi. En hvort Wilson, sem þá var starfandi prestur, hafi vitað af ofbeldinu hefur ekki verið vitað. Hann hefur alltaf neitað því og reyndi að streitast á móti uppsögninni. 

Wilson var lengi prestur í New South Wales en Jóhannes Páll II páfi skipaði hann biskup í  Wollongong árið 1996. Fimm árum síðar varð hann erkibiskup í Adelaide.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert