Singapore kyrrsetur allar Max-vélar Boeing

Changi-flugvöllurinn í Singapore. Flugmálayfirvöld í ríkinu hafa kyrrsett allar Boeing ...
Changi-flugvöllurinn í Singapore. Flugmálayfirvöld í ríkinu hafa kyrrsett allar Boeing 737-vélar af Max-gerðinni. AFP

Flugmálayfirvöld í Singapore hafa kyrrsett allar Boeing 737  farþegaþotur af Max-gerðinni og bannað flug þeirra til og frá landinu þar til rannsókn hefur farið fram. Tvö mannskæð flugslys hafa orðið á innan við fimm mánaða tímabili þar sem Boeing 737 Max 8-vélar komu við sögu, en 157 manns fórust er slík vél í eigu Ethiopian Airlines hrapaði á sunnudag.

Greint var frá því í gær að yfirvöld í Kína, Indónesíu og á Cayman-eyjum hefðu kyrrsett Boeing 737 Max 8 og það sama hefur Ethiopian Airlines gert. Icelandair, sem á þrjár farþegaþotur þessarar tegundar, ætlar hins vegar ekki að kyrrsetja sínar vélar að svo stöddu, en segist fylgjast vel með framgangi rannsóknarinnar.

BBC segir Singapore hins vegar vera fyrsta ríkið sem kyrrsetur allar farþegaþotur af Max-tegundinni, en Changi-flugvöllurinn í Singapore er í sjötta sæti yfir þá flugvelli í heiminum sem hvað mest umferð er um.

Óljóst er hvort þessi ákvörðun flugmálayfirvalda muni leiða til þess að einhverjum flugferðum verði aflýst. Flugmálayfirvöld segjast þó vinna að því með forsvarsmönnum Changi-flugvallarins og flugfélögum til að draga úr áhrifum ákvörðunarinnar á farþega.

Banda­rísk flug­mála­yf­ir­völd (FAA) sögðu í gærkvöldi að þau myndu fyr­ir­skipa flug­véla­fram­leiðand­an­um Boeing að gera breyt­ing­ar á hönn­un 737 MAX 8-flug­véla sinna, ekki verði þó gerð krafa um að slíkar vélar verði kyrr­sett­ar í Banda­ríkj­un­um.

Um 350 Max 8-vélar eru í notkun víða um heim, lítill fjöldi af Max 9-vélum eru einnig í notkun. Max 7- og Max 10-vélarnar, sem bætast eiga við Max-fjölskyldu 737-línunnar, eru hins vegar ekki enn komnar í notkun.

mbl.is