Guð sendi Trump til að bjarga gyðingum

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist sannfærður um að Drottinn sé …
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist sannfærður um að Drottinn sé að verki varðandi gjörðir Trumps. AFP

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir „mögulegt“ að Guð hafi sent Donald Trump Bandaríkjaforseta til að bjarga gyðingum frá Írönum. Pompeo lét þessi orð falla í viðtali við kristna sjónvarpsstöð í heimsókn sinni til Ísrael. Sagði Pompeo trú sína fá sig til að telja þetta.

Greint var frá því í gær að Trump vilji að Bandaríkin viðurkenni yfirráð Ísraela yfir Gólanhæðum sem eru við landamæri Ísraels og Sýrlands.

Pompeo lofaði enn fremur aðgerðir bandarískra stjórnvalda til að „tryggja að lýðræði viðhaldist í Miðausturlöndum, það er í þessu gyðingaríki“.

Viðtal sjónvarpsstöðvarinnar tengdist Purim trúarhátíðinni sem nú stendur yfir, en þá minnast gyðingar þess er Esther drottning bjargaði þeim frá Persum. Þáttastjórnandinn minnti Pompeo á þetta og spurði hvort að „vera kunni að Trump hafi verið kallaður til vegna slíkra tíma, rétt eins og Esther drottning til að hjálpa til við að bjarga gyðingum frá írönsku ógninni.“

„Sem kristinn maður þá tel ég það svo sannarlega mögulegt,“ sagði Pompeo og bætti við: „Ég er sannfærður um að drottinn er hér að verki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert