Söguleg stund í Chicago

Nýafstaðnar borgarstjórnarkosningar í Chicago-borg í Illinois-ríki í Bandaríkjunum eru komnar í sögubækurnar eftir að ljóst varð að nýr borgarstjóri Chicago er Lori Lightfoot, fyrrverandi ríkissaksóknari. Lightfoot er 56 ára, og fyrsta svarta konan til að gegna embætti borgarstjóra í Chicago.

Fjórtán frambjóðendur sóttust eftir embættinu og í lokaumferð kosninganna hlaut Lightfoot 74% greiddra atkvæða.

Lightfoot er einnig fyrsta samkynhneigða konan sem sest á borgarstjórastól og fagnaði hún niðurstöðu kosninganna innilega með eiginkonu sinni og dóttur.

„Hvert ykkar eitt og einasta getur orðið borgarstjóri“ 

„Þarna úti eru litlar stúlkur og drengir að fylgjast með. Fylgjast með okkur. Og þau eru að sjá upphafið á einhverju, tjah, aðeins öðruvísi. Þau eru að sjá borg endurfæðast,“ sagði Lightfoot í ræðu þegar úrslitin voru ljós. „Öll börn ættu að vita þetta: Hvert ykkar eitt og einasta getur orðið borgarstjóri Chicago,“ sagði hún jafnframt.

Berst gegn byssuofbeldi

Lengi vel voru sigurmöguleikar Lightfoot taldir litlir sem engir en í kosningabaráttu sinni lagði hún áherslu á að uppræta pólitíska spillingu og styðja við bakið á láglaunafjölskyldum.

Lightfoot hefur einnig barist gegn byssuofbeldi sem er daglegt brauð á götum borgarinnar. Lightfoot leiddi um tíma starfshóp á vegum lögreglunnar sem var komið á fót í kjölfar andláts Laquan McDonald, 17 ára svarts stráks, sem var skotinn til bana af lögreglumanni árið 2014.

Lightfoot hefur einnig verið stjórnarformaður Chigaco Police Board, borgaralegrar nefndar sem hefur yfirsýn yfir störf lögreglumanna.

Með tilkomu Lightfoot gegna átta svartar konur embætti borgarstjóra í borgum Bandaríkjanna, þar á meðal Atlanta, New Orleans og San Francisco. Lightfoot tekur við embætti af Rahm Emanuel, sem hefur meðal annars gegnt starfi starfsmannastjóra Hvíta hússins í forsetatíð Barack Obama.

Amy Eshleman smellir kossi á eiginkonu sína, Lori Lightfoot, sem …
Amy Eshleman smellir kossi á eiginkonu sína, Lori Lightfoot, sem var kjörin borgarstjóri Chicago-borgar í gær, fyrst svartra kvenna. AFP
Lori Lightfoot berst gegn byssuofbeldi og vill sjá Chicago-borg endurfæðast.
Lori Lightfoot berst gegn byssuofbeldi og vill sjá Chicago-borg endurfæðast. AFP
mbl.is