Kjarnavopn í evrópskum herstöðvum

Kjarnavopnin eru meðal annars sögð geymd í tveimur herstöðvum á …
Kjarnavopnin eru meðal annars sögð geymd í tveimur herstöðvum á Ítalíu. AFP

Skýrsla Atlantshafsbandalagsins, sem virðist hafa verið birt fyrir mistök, staðfestir það sem marga hafði lengi grunað: að bandarísk kjarnorkuvopn væru geymd í Evrópu.

Hollenski miðillinn De Morgen greinir frá því að samkvæmt skýrslunni, sem nú hefur verið breytt, séu um 150 kjarnorkuvopn frá Bandaríkjunum geymd í sex herstöðvum í Evrópu: í Belgíu, Þýskalandi, Hollandi, Tyrklandi og tveimur á Ítalíu.

Skýrslan ber heitið „A new era for nuclear deterrence? Modernisation, arms control, and allied nuclear forces“ og var unnin fyrir varnar- og öryggismálanefnd bandalagsins af kanadíska öldungadeildarþingmanninum Joseph Day. 

Eftir að skýrslan var birt 11. júlí hefur málsgreinin, þar sem greint er frá staðsetningu kjarnavopnanna í Evrópu, verið fjarlægð, og þess í stað segir þar að Belgía, Þýskaland, Ítalía, Holland og Tyrkland eigi, eins og áður hafi komið fram, hentugan flugflota til kjarnorkuárása.

Day segir að útgáfa skýrslunnar sem var birt hafi aðeins verið drög og að allar upplýsingar sem þar komi fram hafi áður verið aðgengilegar, en embættismenn hjá Atlantshafsbandalaginu segja skýrsluna ekki opinbert plagg.

Hvorki Bandaríkin né aðrar þjóðir, sem eiga aðild að Atlantshafsbandalaginu, hafa áður gefið upp staðsetningu kjarnavopna.

mbl.is

Bloggað um fréttina